Innlent

Fjöldaveikindum tekið af fullri alvöru

Heimir Már Pétursson skrifar
Allir undirmenn á Herjólfi sem Alþingi frestaði verkfallsaðgerðum hjá í nótt, tilkynntu sig veika í morgun. Rekstrarstjóri skipsins segir alvarlegt þegar helmingur áhafnar veikist og voru starfsmennirnir allir kallaðir í skoðun hjá trúnaðarlækni fyrirtækisins.

Sex undirmenn á Herjólfi höfðu verðið verkfallsaðgerðum frá 5. mars, sem fólst í að ekki var unnin yfirvinna og ekki á föstudögum og um helgar, þegar innanríkisráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi seinnipartinn í gær sem frestaði aðgerðunum til 15. september. Áður en Herjólfur lét úr höfn í morgun tilkynntu undirmenn sig alla veika og voru landmenn Eimskipa í Eyjum látnir sigla í þeirra stað. Fyrirtækið lét síðan trúnaðarlækni sinn kanna heilsufar skipverjanna sem tilkynntu veikindin.

„Eins og eðlilegt er þegar svona gerist. Því að staðan er auðvitað alvarleg ef upp koma svona fjöldaveikindi á svona litlum vinnustað. Þá er það eitthvað sem menn hljóta að skoða og taka af fullri alvöru,“ segir Gunnlaugur Grettisson rekstrarstjóri Herjólfs.

Jónas Garðarsson formaður Sjómannafélags Íslands sagði á Vísi í dag að gott væri til þess að vita að Eimskip að hægt sé að ganga að læknum Eimskipafélagsins. Ekki liggur ljóst fyrir hvort starfsmennirnir mæti til vinnu á morgun en ferðir skipsins voru með eðlilegum hætti í dag.

„Við mönnuðum skipið eins og mönnunarreglur gera ráð fyrir. Að sjálfsögðu var það allt gert eins og lög kveða á um. Maður veit svo sem ekki hvað nýr dagur á morgun ber í skauti sér en auðvitað erum við að hugsa um það ef veikindin verða áfram á morgun, þá þurfum við að bregðast við því líka ja,“ segir Gunnlaugur.

Ef undirmenn mæti ekki verði skipið mannað öðrum starfsmönnum eins og í dag.

Eruð þið að íhuga einhver önnur viðbrögð?

„Ekkert á þessu stigi. Við svosem gefum okkur ekki annað en þetta séu eðlileg forföll og þangað til annað kemur í ljós getum við ekki sagt annað en við reynum að vinna vinnuna okkar og halda áætlun,“ segir Gunnlaugur Grettisson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×