Innlent

„Mjög óhugnanlegt“ – Ferðast ekki um einar lengur

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Erla María Tölgyes, Anna Lilja Henrysdóttir, Sandra Sif Sæmundsdóttir og Tinna Björk Guðmundsdóttir. Vinkonurnar passa vel upp á hverja aðra. Stúlkan sem fannst myrt í síðustu viku var í sama skóla og þær.
Erla María Tölgyes, Anna Lilja Henrysdóttir, Sandra Sif Sæmundsdóttir og Tinna Björk Guðmundsdóttir. Vinkonurnar passa vel upp á hverja aðra. Stúlkan sem fannst myrt í síðustu viku var í sama skóla og þær.
„Stelpan sem var drepin á föstudaginn var í sama skóla og við,“ segir Sandra Sif Sæmundsdóttir, 23 ára háskólanemi í Brisbane í Ástralíu. Sandra er í námi við Griffith háskólann ásamt þremur íslenskum vinkonum sínum og hefur búið í um tvo mánuði í borginni. 

Morð á ungum erlendum háskólanemum hafa vakið óhug í borginni. Á föstudaginn síðasta fannst lík ungrar franskrar konu. Lögreglan í Brisbane segir ljóst að konan sem var 21 árs hafi orðið fyrir hrottalegri árás og hlotið alvarlega höfuðáverka sem hún lést af.

Síðustu fjóra mánuði hafa fjórir erlendir háskólanemar fundist myrtir í borginni. Aðeins örfáum dögum áður en franska konan fannst látin fannst önnur kona, námsmaður frá Singapúr, látin. Sú hafði verið stungin til bana. Námsmaður frá Suður-Kóreu fannst stunginn til bana í nóvember og annar námsmaður frá Suður-Kóreu fannst myrtur í desember.

Lögreglan hefur engan í haldi vegna síðasta morðsins en þrír eru í haldi vegna hinna. Lögreglan segir ekki víst að nokkur tengsl séu á milli morðanna. 

„Sumir fjölmiðlar tala um fjögur morð á fjórum mánuðum en aðrir tala um að sex erlendir háskólanemar hafi verið myrtir á síðustu sex mánuðum,“ segir Sandra.

„Það er alltaf talað um að það séu engin tengsl á milli morðanna en þó eru þau óvenju lík,“ segir Sandra. Til að mynda séu allir myrtu á svipuðum aldri og allt erlendir námsmenn.

Síðustu tvö morðin voru framin í sama hverfi og Sandra og vinkonur hennar búa í. Franska stúlkan, sú fannst á föstudaginn,  var einnig nemandi í sama skóla og þær.

Skjáskot af bréfi borgarstjóra Brisbane.
„Maður varð ekkert mikið var við þetta fyrst, Brisbane er stór borg,“ segir Sandra. Eftir að franska stúlkan fannst myrt hafi þetta þó óneitanlega færst nær þeim. Borgarstjórinn hefur sent nemendum við háskóla borgarinnar póst. Þar biður hann alla að fara varlega og hvetur fólk til þess að ferðast ekki nema í fylgd með öðrum.  

„Þetta er mjög óhugnanlegt. Við pössum okkur núna á að fara ekki um einar og erum helst ekki á ferðinni  í myrkri,“ segir Sandra.

„Við ferðum allar saman og sækjum hvor aðra í skólann. Við komum hingað að í von um að kynnast nýju fólki, en maður er ekki alveg jafn fús til þess núna og fólk fer sérstaklega varlega.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×