Innlent

Umdeildar uppsagnir leikara Borgarleikhúss

Jakob Bjarnar skrifar
Leikarar sem til stendur að frá hverfi eiga að baki áratuga glæstan leikferil.
Leikarar sem til stendur að frá hverfi eiga að baki áratuga glæstan leikferil.
Félag íslenskra leikara hefur samþykkt ályktun þar sem uppsögnunum í Borgarleikhúsinu er harðlega mótmælt. Sáttaleiða er leitað.

Fimm leikarar verða ekki á samningi á nýju leikári. Þeim sem sagt var upp samningum eru Hanna María Karlsdóttir, Theodór Júlíusson og Hallgrímur Ólafsson. Mikill urgur er meðal leikara en þannig er að bæði Hanna María og Theodór eiga að baki áratuga farsælan feril og er stutt í að þau fari á eftirlaun. Nöfn þessara þriggja hafa verið fjarlægð af heimasíðu Borgarleikhússins.

Kristín Eysteinsdóttir, nýr leikhússtjóri Borgarleikhússins, kynnti í gær sex nýja leikara til sögunnar, þeirra á meðal eru Björn Thors og Hilmir Snær Guðnason. En, ekkert er ljós án skugga; endurskipulagningu fylgja gjarnan uppsagnir.

Félag íslenskra leikara hefur samið harðorða ályktun sem ætlunin er að afhenda Borgarleikhússtjóra og stjórn leikhússins. Samkvæmt heimildum Vísis er inntak ályktunarinnar að því er mótmælt harðlega að fólki, sem hefur helgað líf sitt listinni og þessu leikhúsi, sé sagt upp þegar starfsævin er komin svo vel á veg.

Vísir ræddi við Theodór af þessu tilefni en hann gat litið sem ekkert tjáð sig um stöðu mála, því eftir því sem hann best vissi voru þessi mál til endurskoðunar. Hann tók ekki við uppsagnarbréfinu því fyrir tveimur dögum sat hann fund með leikhússtjóranum þar sem farið var yfir þau verkefnis sem til stóð að hann tæki að sér. Og þá kom þetta ekki til tals.

Samkvæmt þessu stendur nú yfir endurskoðun uppsagnanna og eru menn að reyna að finna leiðir til sátta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×