Innlent

Rusl í matinn

Birta Björnsdóttir skrifar
Ruslahlaðborðið var á boðstólnum í Norræna húsinu fyrr í dag, en þar fór fram málþing undir yfirskriftinni Matarleifar og matarsóun. Tilgangurinn er að vekja máls á því gífurlega magni af mat sem hent er á hverju ári, en um þriðjungur allra matvæla endar í ruslinu.

Dóra Svavarsdóttir er annar þeirra matreiðslumeistara sem sá um að framreiða dýrindis mat úr rusli á hlaðborðið.

„En svo það komi nú fram þá er þetta ekki matur sem fenginn er úr ruslatunnum. Við báðum þrjár verslanir á höfuðborgarsvæðinu um að halda til haga þeim mat sem annars hefði farið í ruslið hjá þeim í nokkra daga. Úr því gátum við eldað um 150 kíló af mat,“ segir Dóra.

Hún segir tilganginn vera að vekja athygli á því mikla magni sem við hendum af mat, jafnt framleiðendur sem neytendur, en áætlað er að 30 % til 50% af matvælum í heiminum sé hent.

Undir þetta tekur Þuríður Helga Kristjánsdóttir, verkefnastjóri hjá Norræna húsinu. Hún segir um 9 milljónum tonna af matvælum vera hent árlega í Evrópu.

„Þetta eru ekki bara neytendur, þetta er alls staðar í keðjunni þar sem neytendur eru í raun síðasti hlekkurinn. Við þurfum að byrja miklu fyrr, í framleiðslunni og svo í smásölunni. Og svo geta neytendur auðvitað alltaf bætt sig,“ segir Þuríður Helga.

„Við viljum sjá hugarfarsbreytingu hjá verslunum, að þær flokki betur sorp og bjóði upp á matvæli á annan hátt,“ segir Þuríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×