Innlent

Verkfalli að ljúka?

Birta Björnsdóttir skrifar
Sáttaumleitanir hafa farið fram í húsnæði Ríkissáttasemjara í kjaradeilu framhaldsskólakennara allan í dag.

Í fyrsta sinn kvað við jákvæðan tón í máli umsemjenda og útiloka þeir ekki að skrifað verði undir samning á morgun.

„Já við erum að vinna að samningsdrögum núna," sagði Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður samninganefndar framhaldsskólakennara, í samtali við fréttastofu rétt fyrir fréttir. Hún sagðist ekki halda að skrifað yrði undir samninginn í kvöld, en líklega á morgun.

Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, sagðist í samtali við fréttastofu einnig vongóður um að verkfalli og samningaviðræðum ljúki á morgun með undirritun samnings. Fundur hefur verið boðaður í hádeginu á morgun með trúnaðarmönnum og formönnum svæðafélaga Félags framhaldsskólakennara og félags stjórnenda í framhaldsskólum.

Ef fram fer sem horfir fyllast menntaskólar landsins aftur af nemendum og kennurum á mánudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×