Innlent

Íslensk stúlka í Chile: Þurfti að yfirgefa heimili sitt

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Íslensk stúlka búsett í Chile þurfti að yfirgefa heimili sitt eftir að risajarðskjálfti reið yfir norðurhluta landsins. 

Tveir stórir jarðskjálftar urðu í Chile á miðvikudag og fimmtudag. Skjálftarnir voru 8,2 og 7,6 stig og ollu gífurlegri eyðileggingu. Að minnsta kosti sex létust í skjálftunum.

Alda Björk Egilsdóttir hefur verið búsett í strandhéraðinu Iquique í Chile síðan í ágúst en þar er hún skiptinemi á vegum AFS. Skjálftarnir áttu upptök sín 86 kílómetra norðvestur af héraðinu.  Alda og fósturfjölskylda hennar búa í blokk á strandlengjunni. 

„Ég var svo heppin að vera einmitt í heimsókn hjá vini mínum þegar skjálftinn reið yfir. Ég er ofboðslega fegin að hafa ekki verið heima, þar sem við búum á tíundu hæð,“ segir Alda. 

Það tók Öldu nokkurn tíma að komast í samband við fósturfjölskyldu sína eftir skjálftann, en rafmagn sló út á stórum svæðum og neyðarástandi var lýst yfir.

Alda segir eyðilegginguna mikla en í kjölfar fyrri skjálftans gengu flóðbylgjur á land og ollu gríðarlegu tjóni á strandlengjunni. Tugum þúsunda íbúa var gert að yfirgefa heimili sín vegna hættu á eftirskjálftum og flóðbylgum. Alda og fósturfjölskylda hennar voru þar á meðal.  Þau dvelja nú hjá ættingjum sunnar í landinu.                       








Fleiri fréttir

Sjá meira


×