Innlent

Allt flug stöðvast í fyrramálið

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/valgarður
Allt flug mun liggja niðri á milli klukkan fjögur og níu  í fyrramálið og kemur það til með að snerta um fjögur þúsund farþega. Um fjögur hundruð starfsmenn leggja niður störf á þessum tíma.

Fundað var um málið með fulltrúum Isavia í dag og lauk fundi nú síðdegis, án árangurs. Kröfugerð var lögð fram, en enn ber mikið á milli aðila.

„Í fyrsta skipti í morgun eru þeir að taka tillit til okkar krafna. Kröfugerðin kemur alltof seint að okkar mati. Við lögðum fram kröfugerð fyrir mörgum mánuðum,“ segir Kristján Jóhannsson, formaður FFR, í samtali við Vísi. Hann segir að ekki hafi verið ástæða að halda fundi áfram því töluverð vinna sé framundan.

Deilendur setjast næst við samningaborðið fimmtudaginn 10.apríl.

Frekari verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar þann 23. apríl næstkomandi og allsherjar verkfall skellur á þann 30. apríl náist samningar ekki. 

Aðeins verður sjúkra- og björgunarflug leyfð umferð um Keflavíkurflugvöll á þessum tíma á morgun.

Unnið verður eftir viðbragðsáætlun sem miðar að því að takmarka sem mest röskun og óþægindi. Flugfarþegum er bent á að fylgjast með tilkynningum á vefsvæðum flugfélaganna, Keflavíkurflugvallar eða Isavia um breytingar sem kunna að verða á flugáætlun.

Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verður opin og farþegar Icelandair geta notað sjálfsinnritunarstöðvar fyrir kl 9.00 en hefðbundin innritun, farangursafhending og vopnaleit hefst ekki fyrr en eftir kl 9.00. Farþegar komast því ekki inn á fríhafnarsvæði eða að brottfararhliðum fyrr en eftir þann tíma.

Flugáætlun ætti að vera komin í óbreytt horf að morgni miðvikudags.


Tengdar fréttir

Allt stefnir í verkfall á þriðjudag

Samninganefndir Isavia og flugmálastarfsmanna funduðu í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. 400 flugmálastarfsmenn hafa boðað til fimm klukkustunda verkfallsagerða næstkomandi þriðjudag.

Áttatíu brottfarir og lendingar í Keflavík innan verkfallstímans

Þrjú skæruverkföll flugvallarstarfsmanna gætu sett úr skorðum áttatíu lendingar og brottfarir í utanlandsflugi auk röskunar á innanlandsflugi. Isavia og flugfélögin gera áætlun til að lágmarka truflunina sem gæti orðið ennþá meiri í lok apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×