Innlent

Formaður foreldrafélags Austurbæjarskóla: Foreldrar heyrðu af árás á nemanda í fjölmiðlum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Gæslan virðist því vera í góðu lagi, það er ekki málið, þetta gerðist bara svo snögglega,“ segir Hildur.
"Gæslan virðist því vera í góðu lagi, það er ekki málið, þetta gerðist bara svo snögglega,“ segir Hildur. VÍSIR/EINAR
Árásin á sjö ára dreng í Austurbæjarskóla átti sér stað í fyrstu frímínútum á mánudagsmorgun. Það var foreldri annars barns sem réðst á drenginn. Þetta kom fram á aðalfundi foreldrafélags skólans í gærkvöldi að sögn Hildar Sveinsdóttur, formanns félagsins.

„Þessi kona átti erindi í skólann, hún er ekki utanaðkomandi,“ segir Hildur.

Málsatvik voru þau að því er fram kom í Fréttablaðinu í morgun að fullorðin kona skallaði sjö ára dreng þar sem hann var við leik á lóð skólans.

Foreldrar annarra barna við skólann voru ekki látnir vita af því sem gerðist á mánudaginn og heyrðu flestir af málinu í fjölmiðlum. Skólastjórinn sendi svo tölvupóst í gærkvöldi, daginn eftir árásina. Þar gerði hann grein fyrir því hvað gerst hafði og sagði málið hafa verið kært til lögreglu og tilkynnt barnaverndaryfirvöldum.

„Margir foreldrar eru ósáttir við að hafa ekki verið látnir vita og fengið tækifæri til þess að ræða við börnin sín um málið,“ segir Hildur. „Nokkur börn urðu vitni að árásinni.“

Starfsmaður skólans sá konuna ræða við drenginn og var á leið til þess að kanna hvaða erindi hún ætti við hann þegar konan réðst skyndilega á drenginn. „Gæslan virðist því vera í góðu lagi, það er ekki málið, þetta gerðist bara svo snögglega,“ segir Hildur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×