Innlent

Þarf að skilgreina sig frá Bjartri framtíð og Samfylkingu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Það hvort óstofnuðum flokki Evrópusinnaðra sjálfstæðismanna tekst að njóta lýðhylli veltur á stefnunni og hvort honum takist að skilgreina sig með skýrum hætti frá Bjartri framtíð og Samfylkingunni. Þetta segir lektor í sagnfræði sem hefur rannsakað stjórnmálasögu 19. og 20. aldar.

Eins og við fjölluðum um í fréttum okkar í gærkvöldi eru óánægðir sjálfstæðismenn, sem eru hlynntir því að ljúka aðildarviðræðum við ESB, með stofnun nýs flokks í undirbúningi. Hreyfiafl þess var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja fram þingsályktun um endanleg slit viðræðna við ESB, en sú tillaga er nú til umfjöllunar í utanríkismálanefnd.

Stofnun flokksins er enn á hugmynda- og undirbúningsstigi. Þrjár stoðir þessa flokks hafa verið ræddar en það er hin pólitíska ásýnd flokksins, skipulag og framkvæmd og peningar.

Ragnheiður Kristjánsdóttir er lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í stjórnmála- og hugmyndasögu 19. og 20. aldar. Ragnheiður segir að flokksbrot úr Sjálfstæðisflokknum hafi aldrei náð að festa rætur í íslenskum stjórnmálum sem mótvægi við þá fjöldahreyfingu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið. Hún rifjar upp Borgaraflokk Alberts Guðmundssonar 1987 og Frjálslynda flokkinn 1998, en hvorugur þessara flokka náði neinni festu í stjórnmálunum yfir lengri tíma eða kjörnum manni á þing oftar en þrjú kjörtímabil.

Ragnheiður segir í samtali við Stöð 2 að ef nýr flokkur bjóði fram þá velti lýðhylli hans m..a á því hvar hann staðsetji sig pólitískt, hversu skýra sjálfsmynd flokkurinn hafi, þ.e. hvort stefnan sé skýr og hvort flokknum takist að skilgreina sig frá Bjartri framtíð og Samfylkingunni sem eru báðir ESB-sinnaðir flokkar. Sjá viðtal við Ragnheiði í meðfylgjandi myndskeiði. 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×