Íslandsmeistarar KR unnu í kvöld 5-0 sigur á Grindavík í Lengjubikarnum, en leikurinn fór fram í Egilshöll.
Aron Bjarki Jósepsson, sem hefur verið iðinn við kolann í vetur, skoraði fyrsta mark leiksins eftir tíu mínútur og Emil Atlason bætti öðru marki við fyrir leikhlé.
Gonzalo Balbi kom KR í 3-0 á 65. mínútu, áður en Gary Martin bætti við tveimur mörkum á sjö mínútna kafla. Lokatölur 5-0, KR í vil.
KR komst með sigrinum í toppsæti riðils eitt í A-deild Lengjubikarsins. Liðið er nú með 13 stig, einu meira en Breiðablik sem situr í öðru sæti.
