Innlent

"Ég loka mig ekki inni þó það sé abbast upp á mig“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Maður, sem réðist á konu á níræðisaldri á laugardag og skallaði hana, hefur verið látinn laus úr haldi lögreglu. Konan segist vera heppin að vera á lífi og hyggst kæra manninn. 

Anna Guðjónsdóttir er 83 ára en hún hefur búið á Njálsgötu í fjörtíu og fjögur ár. Á laugardaginn varð hún fyrir líkamsárás í götunni sinni, þar sem maður skallaði hana.

Síðar um daginn fór Anna fór á bráðamóttöku Landspítalans ásamt barnabarni sínu þar sem henni var tjáð að höfuðáverkar af þessu tagi gætu verið alvarlegir. 

„Ég er bara heppin, það er nokkuð seigt í þeirri gömlu. Mér var sagt á spítalanum að svona áverkar hefðu drepið fólk,“ segir Anna.

Maðurinn var handtekinn og viðurkenndi hann árásina, en hann hefur nú verið látinn laus úr haldi lögreglu. Anna ætlar sér að kæram en það kom henni mikið á óvart að verða fyrir slíkri árás í hverfinu sínu. Hún er þó ekki af baki dottin.

„Það veit heilög hamingjan að ég átti ekki von á þessu. Ég bjóst frekar við að detta niður steindauð. Maðurinn minn sagðist vera skíthræddur að hleypa mér út einni aftur, en ég ætla sko ekki að loka mig inni þó þessi maður sé að abbast upp á mig. Ég ætla bara að vera frjáls og sjálfstæð eins lengi og ég get.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×