Innlent

„Hann gekk ekki svo illa frá mér helvískur“

Samúel Karl Ólason skrifar
Eftir árásina sér mikið á Önnu.
Eftir árásina sér mikið á Önnu. Mynd/Henríetta
„Elskan mín, maður er svo sjóaður í þessu lífi. Hann gekk ekki svo illa frá mér helvískur,“ segir Anna Guðjónsdóttir, aðspurð hvernig hún beri sig eftir árás sem hún varð fyrir á föstudaginn. Þá veittist maður að henni í bakgarði fjölbýlishúss hennar og skallaði hana. Anna er 83 ára gömul.

„Ég trúi þessu varla sjálf. Að ráðast á svona gamalmenni. Hann stangaði mig með hausnum maðurinn. Eins og lögreglan sagði, þá hefur fólk dáið við svona högg á ennið.“ Anna segist hafa gengið hrædd í burtu enda var henni skiljanlega mjög brugðið.

Anna segir marga hafa sett sig í samband við hana undrandi yfir þessu atviki. „Ég er sjálf alveg yfir mig undrandi, hann hefði getað drepið mig.“ Hún er með glóðurauga á báðum augum og mjög marin á enninu.

Anna var út í garði og kemur þar að hundi sem var þar bundinn. „Þetta var fallegur svartur hundur og ég er mikill dýravinur og er að skoða hann. Þá veitist hann að mér gargar á mig að ég eigi að láta hundinn vera og dembir hausnum í ennið á mér.“ Maðurinn réðst einnig á og skallaði annan mann sem ætlaði að koma Önnu til hjálpar.

Hann var handtekinn um nóttina fyrir að brjóta rúður í bílum og hefur játað árásina við yfirheyrslur lögreglu.

Hún segir vini og vandamenn hafa áhyggjur af því að hún muni vera hrædd við að fara úr húsi eftir árásina. „Maður lendir nú í flestu, kerling á níræðisaldri, en ég ætla nú ekki að fara að loka mig inni. Ég er þó hissa á því að ég skildi ekki verða hræddari,“ segir hún.

Anna hefur fengið þær upplýsingar að maðurinn muni ekki leigja áfram það húsnæði sem hann hefur verið í, en hann bjó tveimur stigagöngum frá henni. „Ég er feginn því að hann skuli hafa verið rekinn í burtu. Mér væri ekki sama og hann gæti bara hringt dyrabjöllunni hvenær sem er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×