Innlent

Skallarinn laus úr haldi lögreglu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Anna segist öll vera að koma til, þó að hún sé engin fegurðardrottning eins og er.
Anna segist öll vera að koma til, þó að hún sé engin fegurðardrottning eins og er.
Maðurinn sem skallaði konu á níræðisaldri á laugardag hefur verið látinn laus úr haldi lögreglu. Maðurinn var handtekinn aðfaranótt sunnudags.

Auk þess að ráðast á konuna var maðurinn sakaður um að hafa unnið skemmdir á sex bifreiðum á laugardagskvöld. Hann viðurkenndi öll brotin fyrir lögreglu.

Konan sem varð fyrir árásinni, Anna Guðjónsdóttir, ætlar sér að kæra manninn. „Ég hef ekki kært hann enn því ég kann ekkert að gera svona skýrslu. En ég fæ einhverja hjálp við það,“ útskýrir hún.

Hún segir rannsóknarlögregluna vera komna í málið. „Ég fékk heimsókn frá þeim í dag og ég held að þeir ætli að koma hingað aftur á morgun.“

Kom að hundi

Aðdragandi árásarinnar var snarpur. Anna var úti í garðinum sínum við Njálsgötu. Hún kom að hundi sem var bundinn. „Þetta var fallegur svartur hundur og ég er mikill dýravinur og er að skoða hann.“

Hún segir árásarmanninn þá hafa birst. „Hann veittist að mér gargar á mig að ég eigi að láta hundinn vera og dembir hausnum í ennið á mér,“ útskýrir hún.

Maðurinn réðst einnig á og skallaði annan mann sem ætlaði að koma Önnu til hjálpar.

„Heppin að vera ekki drepin“

Anna segist vera að skána í andlitinu, en hún bólgnaði mjög eftir að hafa verið skölluð. „Marið er að koma út. Ég er bara nokkuð góð núna. En mér er sagt að ég hafi verið heppin að vera ekki drepin. Lögreglumenn sögðu mér að ég hefði hæglega getað dáið við þetta högg,“ segir Anna og bætir við:

„Ég er alls engin fegurðardrottning núna, en það er sko seigt í þeirri gömlu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×