Innlent

Rúmlega fimm þúsund Reykvíkingar tóku þátt í íbúakosningunum Betri hverfi

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir/gva
Alls tóku 5.272 Reykvíkingar þátt í íbúakosningunum Betri hverfi 2014 en í þeim forgangsraða íbúar smærri nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum í hverfum borgarinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Kosningaþátttaka var hæst í Hlíðunum, næstmest í Vesturbæ og Grafarholti-Úlfarsárdal.  Konur eru alls staðar fleiri í hópi þátttakenda en karlar.



Kosningarnar fóru fram dagana 11. – 18.mars og notuð var innskráningarþjónusta island.is til auðkenningar.  Var þetta í þriðja sinn sem Reykjavíkurborg stendur fyrir íbúakosningum með þessu sniði.

Í kosningunum völdu Reykvíkingar  78 verkefni í hverfum borgarinnar sem koma til framkvæmda á þessu ári og verður 300 milljónum varið til þeirra eins og síðustu tvö ár. Kosningarnar eru bindandi fyrir Reykjavíkurborg.

Kosningaþátttaka var ívið minni en í fyrri kosningum. Í ár var hún 5.7% í heildina en 6.3% í fyrra. Á kjörskrá voru 96.854 íbúar en allir sem voru orðnir 16 ára um áramót og eiga lögheimili í Reykjavík gátu tekið þátt.

Hæst þáttökuhlutfall  í öllum hverfum er hjá kjósendum á aldrinum 30 – 50 ára en gera má ráð fyrir að það sé fólkið sem hefur ákveðið fasta búsetu í ákveðnum hverfum og vill helst hafa áhrif á lífsgæði í hverfinu sem það býr í.

Yfir 400 hugmyndir bárust frá íbúum inn á vefinn Betri hverfi 2014 á Betri Reykjavík sem opinn var fyrir innsetningu hugmynda í nóvember á síðasta ári.

Hér má sjá  verkefnin sem íbúar völdu í kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×