Innlent

„Algjörlega óásættanleg vinnubrögð“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
„Á endanum þurftum við að fara í hart til að fá eitthvað af gögnunum,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði. Bæjarfulltrúar flokksins sendu frá sér tilkynningu síðastliðinn sunnudag þess efnis að nauðsynleg gögn er varða tilboð Íslandsbanka í endurfjármögnun á 13 milljarða króna skuld bæjarins hafi ekki verið afhent.

Gögnin voru afhent í kjölfar fréttatilkynningarinnar og fundaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar um málið í gær. Fjörutíu og átta klukkustunda frestur var gefinn og þarf endanleg niðurstaða að liggja fyrir á morgun. Lögð var fram frestunartillaga sem meirihluti féllst ekki á.

„Það er bara svo óásættanlegt að stilla okkur svona upp. Það er algjört einsdæmi að það sé ekki farið að ósk kjörinna fulltrúa um frestun mála milli funda þegar bein tímapressa liggur ekki undir. Tilboðið gildir til 4. apríl. Það eru engir tímaþættir sem afsaka það að neita okkur um þennan frest. Þetta eru algjörlega ósáættanleg vinnubrögð,“ segir Rósa.

„Þetta er ansi stuttur fyrirvari fyrir svona gríðarstóra ákvörðun. Þetta eru þrettán milljarðar sem við erum að tala um.“

Í frétt RÚV segir Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, að öll gögn hafi legið fyrir. Hann nefnir þar að bæjarfulltrúar hafi fengið tveggja tíma kynningarfund um málið og hafi haft aðgang að lánatilboði Íslandsbanka auk fleiri gagna.

„Við fengum munnlega kynningu á tilboðinu. Það er stór munur á því að fá munnlega kynningu og að fá gögnin beint í hendurnar,“ segir Rósa.


Tengdar fréttir

Bæjarstjóri hafnar ásökunum

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, segir Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur bæjarstjóra neita bæjarfulltrúum flokksins um gögn um endurfjármögnun á 13 milljarða skuldum bæjarins. Guðrún Ágústa hafnar því að gögnum sé leynt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×