Innlent

„Stjórnmálamenn eiga bara ekki að reka fyrirtæki"

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Tillaga KPMG og Analytica um að leggja niður Íbúðalánasjóð var rökrædd í Minni Skoðun á Stöð 2 í dag. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sagðist fegin að heyra tillöguna. Hún sagðist halda fjármálafyrirtæki og banka fullfæra um að viðhalda íbúðalánakerfi.

„Ég fagna því auðvitað að það sé verið að leggja niður íbúðalánasjóð. Hann hefur verið skattgreiðendum þung byrði og dælt í hann milljörðum hérna ár eftir ár til að sópa einhverju undir teppið og bjarga einhverju," sagði Áslaug. „Stjórnmálamenn eiga bara ekki að reka fyrirtæki."

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar sagðist ekki hrifinn af dönsku leiðinni.

„Ég er ekki alveg sammála þessu, ég tel að það þurfi svona ákveðið félagslegt öryggi, hann sinnti ákveðnu félagslegu hlutverki gagnvart láglaunafólki og gagnvart landsbyggðinni," sagði Össur. „Hverjir eru með hæstu húsnæðisskuldir á gervöllum vesturlöndum? Það eru Danir. Kerfið er þannig, og ég er hræddur við þetta danska kerfi, og kaupi það ekki svona hrátt."

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata sagði málið vera flóknara en virtist við fyrstu sýn og að hagsmunaárekstra væri að vænta eins og sjóðurinn er í dag.

„Eins og þetta er núna eru gríðarlegir hagsmunaárekstrar. Það er erfitt fyrir ríkið að sjá um réttarstöðu og hagsmuni lántakenda því ef það er gert til fulls þá er hætta á því að það skelli gríðarlega stór fjárhagsbaggi á ríkinu," sagði Jón Þór. „Hvar eru hagsmunirnir þegar íbúðalánasjóður fær á sig dómsmál um ólögmæti verðtryggingar og biður um frávísun, meðan innanríkisráðherra ætti að vera að tryggja réttarhagsmuni almennings? Það eru greinilegir hagsmunaárekstrar þarna," sagði Jón Þór. 

Umræðuna má sjá í spilaranum fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Íbúðalánasjóður yrði lagður niður

Ekki er talið ráðlegt að viðhalda starfsemi Íbúðalánasjóðs í núverandi mynd. Lagt er til að Íbúðalánasjóður hætti alfarið að veita ný útlán og starfsemi hans verði skipt í tvo hluta.

ASÍ vill dönsku leiðina alla leið

Í skýrslu KPMG og Analytica til félagsmálaráðherra er lagt til að danska leiðin verði farin á almennum húnsæðismarkaði. Forseti ASÍ vill líka fara danska leið í félagslega kerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×