Innlent

Gunnar Bragi fundaði með Evrópumálaráðherra Noregs

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vidar Helgesen og Gunnar Bragi Sveinsson.
Vidar Helgesen og Gunnar Bragi Sveinsson. mynd/aðsend
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Vidar Helgesen, Evrópumálaráðherra Noregs, funduðu í Reykjavík í dag en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.

Á fundinum sammæltust þeir um að styrkja samvinnu ríkjanna enn frekar í málefnum Evrópska efnahagssvæðisins, m.a. með upplýsingaskiptum, starfsmannaskiptum og nánara samráði á öllum sviðum sem varða samninginn, eins fljótt og auðið er.

Fram kemur í tilkynningunni að íslensk og norsk stjórnvöld líta svo á að EES-samningurinn sé grundvöllur samstarfs ríkjanna við Evrópusambandið. Samningurinn greiði fyrir viðskiptum, opni markaði og ýti undir hagsvöxt. Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þess að allir aðilar samningsins gerðu sitt til að tryggja framkvæmd hans.

Ríkisstjórnir beggja landa hafa breytt stefnu í Evrópumálum frá því að þær tóku við völdum á síðasta ári og á fundinum ræddu ráðherrarnir þá möguleika og áskoranir sem felast í EES-samvinnunni.

Þeir lögðu áherslu á að vinna saman að úrbótum, einkum varðandi upptöku regluverks í EES samninginn og löggjöf landanna, svo að tryggja mætti áfram jafnan markaðsaðgang í Evrópu fyrir íslensk og norsk fyrirtæki. Stjórnvöld í báðum löndum hyggjast grípa til aðgerða til að tryggja hraðari innleiðingu.

Ráðherrarnir sögðu það forgangsverkefni að taka þátt í ákvarðanaferli ESB þegar sambandið ræddi nýja löggjöf varðandi innri markaðinn og þar með EES. Þá væri báðum þjóðum mikilvægt að nýta sem best þá möguleika sem fælust í þátttöku í ESB verkefnum á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar ofl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×