Handbolti

Forráðamenn Löwen hneykslaðir á úrskurðinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Thorsten Storm, framkvæmdarstjóri Rhein-Neckar Löwen, er orðlaus yfir þeirri refsingu sem Talant Dujshebaev fékk í gær.

Dujshebaev var sektaður af Handknattleikssambandi Evrópu [EHF] um fimm þúsund evrur, 775 þúsund krónur, fyrir framkomu sína á blaðamannafundi eftir leik Kielce og Löwen í Meistaradeild Evrópu.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen, greindi frá því eftir leikinn að Dujshebaev hefði komið upp að sér eftir leik og slegið hann fyrir neðan beltisstað. Myndbandsupptökur virtust styðja þá fullyrðinu en í úrskurði EHF segir að ónægar sannanir séu fyrir hendi til að hægt sé að taka afstöðu til atviksins.

„Ég er eiginlega orðlaus en það á örugglega við fleiri handboltamenn,“ sagði Storm í yfirlýsingu sem félagið birti í morgun.

„Við höfum þurft að greiða mun hærri sektir fyrir að setja auglýsingaskilti á rangan stað. Það er líka synd að Guðmundur Guðmundsson hafi ekki fengið neina afsökunarbeiðni,“ bætti Storm við.

Liðin eigast við á mánudagskvöld í síðari viðureign þeirra í 16-liða úrslitum keppninnar. Kielce leiðir rimmunna eftir sigur á heimavelli, 32-28.

Viðbrögð leikmanna hafa heldur ekki látið á sér standa en hér fyrir neðan lýsir hornamaðurinn Patrick Groetzki hneykslan sinni á úrskurðinum á Twitter-síðu sinni. Hann segist þar meðal annars skammast sín fyrir íþróttina sína.


Tengdar fréttir

Forseti Kielce: Við munum verja okkur

Ekkert virðist marka meinta afsökunarbeiðni sem forráðamönnum Rhein-Neckar Löwen á að hafa borist eftir leik liðsins gegn Kielce um helgina.

Dujshebaev fékk sekt en slapp við leikbann

Handknattleiksþjálfarinn Talant Dujshebaev var ekki dæmdur í leikbann fyrir að kýla Guðmund Þórð Guðmundsson. Aganefnd EHF úrskurðaði í málinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×