Dujshebaev var í dag sektaður af Handknattleikssambandi Evrópu fyrir framkomu á blaðamannafundi eftir leik Kielce og Rhein-Neckar Löwen í Meistaradeild Evrópu um helgina.
Á fundinum sakaði hann Guðmund Guðmundsson, þjálfara Löwen, um ósæmilega hegðun en Guðmundur greindi svo frá því í viðtölum eftir leik að Dujshebaev hefði slegið sig fyrir neðan beltisstað.
Þó svo að myndbandsupptökur virðast styðja málsstað Guðmundar var Dujshebaev ekki refsað fyrir það. Spánverjinn hefur þó gengið mjög vasklega fram í viðtölum og sakar Guðmund um mikinn óheiðarleika.
„Mér finnst þetta eiginlega sorglegt hvað hann Talant varðar,“ sagði Ólafur Stefánsson, þjálfari Vals, í samtali við Vísi í kvöld um málið. Ólafur þekkir vel til hans enda lék hann undir stjórn Dujshebaev í mörg ár hjá Ciudad Real á Spáni. Hann lék einnig með honum áður en Dusjhebaev tók við sem þjálfari.

„Það er eins og að hann hafi misst sig og ummælin sem hann hefur látið fara frá sér eru út í hött. Ég kannast ekki við þann mann sem þarna talar. Þetta er ekki sá Talant sem ég þekki.“
„Kannski er ein ástæðan fyrir þessu sú að hann er ekki með þann aðstoðarmann með sér í Kielce sem hann er vanur að hafa. Hann er góður gæi sem kann að slaka á honum,“ segir Ólafur.
„Það er stutt í ribbaldann hjá Talant en engu að síður er þetta ekki sá þjálfari sem ég þekki. Hann átti það til að sýna þessa hlið á sér en þarna er hún orðin allt of stór.“
Ólafur segir að Dujshebaev hafi gengið í gegnum ýmislegt á sinni ævi og að hann hafi þurft að hafa fyrir því sem hann hefur áorkað. „En hann á að vera orðinn nógu þroskaður til að láta ekki svona.“

„Ég vil ekki gerast dómari í þessu máli en ég hefði staðið öðruvísi að þessu. Svona mál eru slæm fyrir íþróttina í heild og verðskulda harðari refsingu. En ég vona bara að hann finni sjálfan sig og þá reisn sem ég veit að hann býr yfir.“
Ólafur segir ljóst að Guðmundur hafi tekið vel á þessu máli. „Gummi á ekkert í þessu. Hann er bara fórnarlamb ef það er þá fórnarlamb í svona máli. Hann má bara ekki taka þetta inn á sig. Gummi á að halda sínu striki.“