Innlent

Evrópustefna ríkisstjórnarinnar er yfirklór

Heimir Már Pétursson skrifar
Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra segir ekkert nýtt í evrópustefnu ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær. Hún sé yfirklór eftir að ríkisstjórninn hafi farið um eins og flóðhestur í postulínsbúð.
Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra segir ekkert nýtt í evrópustefnu ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær. Hún sé yfirklór eftir að ríkisstjórninn hafi farið um eins og flóðhestur í postulínsbúð. vísir/daníel
Fyrrverandi utanríkisráðherra segir ekkert nýtt í evrópustefnu sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi í gær um eflingu EES samstarfsins. Hún sé nokkurs konar yfirbót af hálfu ríkisstjórnarinnar eftir að hafa farið um eins og flóðhestur í postulínsbúð í evrópumálum.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kynnti nýjar evrópuáherslur sínar á ríkisstjórnarfundi í gær. Þær felast aðallega í því að efla viðveru íslenskra erindreka í Brussel, samstarfið inna EFTA og tvíhliða samninga við einstök evrópuríki.

„Í fljótu bragði er nánast ekkert nýtt sem hönd á festir í þessari stefnu. Þetta er samtíningur af verkferlum sem þegar voru fyrir hendi,“ segir Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra.

Ríkisstjónarflokkarnir hafi sjálfir fellt tillögu núverandi utanríkisráðherra um aukin fjárframlög til sendiráðsins í Brussel við fjárlagagerðina fyrir áramót.

„Og svo kannski það sem er broslegast af öllu, að Gunnar Bragi buktar sig fyrir valdinu í Brussel og lofar því að innleiða tilskipanir frá höfuðstöðvunum hraðar en áður og aðlaga Ísland þannig betur að Evrópusambandinu en fyrr,“ segir Össur.

En í dag er nokkur slaki á innleiðingu tilskipanna Evrópusambandsins og hafa risið málaferli út af þvi fyrir EFTA-dómstólnum.

„Og á köflum minnir þetta mig á ítalskan farsa. Þetta er eiginlega of grátbroslegt til þess að hægt sé að brosa af því,“ segir utanríkisráðherrann fyrrverandi.

Össur segir að því hafi verið sinnt eins og hægt er að hafa áhrif á gerðir Evrópusambandsins áður en þær verða að tilskipunum. Íslendingar hafi notið við það verulega góðs samstarfs við Norðmenn sem hafa sterka viðveru í Brussel. Þá hafi samstarfið við hin EFTA ríkin verið gott.  Það sé rislág evrópustefna að styrkja samstarf við vinaþjóðir sem þegar sé mjög gott.

Skýrsla Hagfræðistofnunar um evrópumál og tillaga utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka eru enn til meðferðar í þinginu. Nú liggur síðan þessi nýja stefna fyrir sem enn hefur ekki verið kynnt þinginu, þótt utanríkisráðherra hafi minnst á hana í andsvari á Alþingi í gær.

„Það er náttúrlega ekki tilviljun. Þetta er svona yfirklór eftir að þeir hafa hagað sér eins og flóðhestur í postulínsbúð, brotið og bramlað gagnvart sambandi okkar við Evrópu,“ segir Össur Skarphéðinsson.

Umræður um afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu halda áfram á Alþingi klukkan þrjú í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×