Innlent

Hross fá samskonar áverka erlendis

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Umræðan um „brenglaða menn sem skera hryssur" á sér langa sögu og hefur skotið upp kollinum víðsvegar á Norðurlöndum. Ekki er hægt að sanna að raunverulegur dýraníðingur hafi verið á ferð hér á landi og veitt hryssum áverka á kynfærum eins og fullyrt hefur verið.

Í vikunni var greint frá því í fjölmiðlum að hryssu hefði verið misþyrmt með beittu eggvopni á Kjalarnesi. Málið er talið svipa til mála sem komu upp árið 2011 þar sem talið var að fjölda hesta hefði verið misþyrmt á Egilstöðum, í Skagafirði, í Kjós og á Kjóavöllum í Kópavogi.

Mál þar sem hryssur eru með skurði undir tagli hafa vakið mikla athygli og óhug hér á landi. Þau hafa verið rannsökuð sem hugsanlegt dýraníð af lögreglu og hafa fengið mikla athygli í fjölmiðlum. Lítið fer þó fyrir umræðu sem sýnir fram á eða sannar að ákveðnir aðilar hafi gerst sekir um slíkt, né hafa fundist vopn sem gætu hafa verið notuð til að vinna hestunum mein.

Á vefsíðunni Hestafréttir.is birtist í dag grein þar sem talað er um að umræðan um „brenglaða menn sem skera hryssur” sé ekki ný af nálinni og að í nágrannalöndum okkar eigi slík umræða sér langa sögu. Til að mynda birtist grein á TV2 árið 2008 þar sem danskur dýralæknir til 35 ára sagðist oft hafa séð sár sem líkjast þeim sem „brengluðum mönnum sem skera hryssur” er kennt um og að þau verið af öðrum völdum.

Fjölnir Þorgeirsson, ritstjóri Hestafrétta, segir auðvelt fyrir hross á útigangi að slasa sig. Áverkar geta myndast þegar þau slást sín á milli og einnig eru dæmi um að hryssur veiti sér áverka sjálfar í kringum kynfærin þegar þær eru í hestalátum. Þá sé algengt að hross reki sig í hnúta á girðingum og fleira þegar þau klóra sér.

Í kjölfar umfjöllunar Hestafrétta hafa borist skilaboð ábendingar frá lesendum þar sem meint dýraníð eru dregin í efa og bent er á að slík umræða komi reglulega upp á Norðurlöndum. Þá segist fólk kannast við að hafa séð svipaða áverka á hrossum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×