Innlent

Ísland í dag - Stórhuga einkaþjálfari

Ásgeir Erlendsson skrifar
Einkaþjálfarinn Ingóflur Snorrason hefur í annað sinn á tæpu ári tekið að sér hóp sem reglulega er á lyfjum vegna sjúkdóma og hefur það markmið að skapa þær aðstæður að fólkið geti orðið lyfjalaust. Þetta ætlar hann að gera á 100 dögum. Í sjónvarpsþættinum Íslandi í dag á Stöð 2 í fyrra náði hann góðum árangri þegar þrír af fjórum þátttakendum náðu að losa sig við blóðþrýstingslyfin með bættum venjum og aukinni hreyfingu. Í þetta skipti auglýsti hann sérstaklega eftir þátttakendum sem voru með áunna sykursýki og stefnir á að gera þá einkennalausa. Í Íslandi í dag í kvöld var fylgst með hvernig fyrsta æfingin og mælingarnar gengu en að hundrað dögum liðnum kemur í ljós hvort Ingólfi takist ætlunarverkið.

Ottó Geir Haraldsson er einn þeirra sem ætlar að losa sig við lyfin og hann er bjartsýnn á að það takist.

„Þetta er náttúrulega bara frábært tækifæri sem ég fékk og ég verð að gera eitthvað í þessu. Það er bara búið að vera svo gaman að vera ég. Með Ingó og þennan frábæra hóp sem er í kringum þetta þá eru ýmsir vegir færir. Ég hef verið iðinn við að safna sjálfum mér en nú þarf að breyta því.“

„Hann Ingólfur á mikið verk fyrir höndum.“ Segir Jófríður Hanna Sigfúsdóttir sem segist lítið hafa hreyft sig undanfarin ár.

Ingólfur segir að það sé erfitt að byrja og fara af stað eftir kyrrsetulíf undanfarin ár. „ Þú ert bara vanur því að keyra á ákveðnu tempói í gegnum lífið og svo breytir þú því frekar mikið. Þú ert kannski að mæta sex sinnum í viku og þú ert að breyta matarræðinu. Þetta tekur töluvert á og þessu getur fylgt kvíði.“

Ottó segir að fyrstu æfingarnar hafi verið erfiðar en hann segist hafa skráð sig í verkefnið til að ná markmiðinu. „Þetta verður ekkert auðvelt en til þess er ég hér.“

Umfjöllunina í Íslandi í dag má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×