Innlent

Ríflega helmingur vill Dag í stól borgarstjóra

Heimir Már Pétursson skrifar
Ríflega helmingur Reykvíkinga vill að Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík verði næsti borgarstjóri, eða tvöfalt fleiri en ætla að kjósa flokkinn. Þar á eftir kemur oddviti Sjálfstæðismanna en leiðtogi Bjartrar framtíðar nær ekki tveggja stafa tölu í fylgi.

Dagur B. Eggertsson nýtur lang mest fylgis og langt umfram fylgi Samfylkingarinnar sem nú mælist 23 prósent.  52,6 prósent nefna hann og eru konur ívið hrifnari að honum en karlar, því 57,6 prósent kvenna vilja Dag sem borgarstjóra en 44,8 prósent karla.



Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðismanna nýtur næst mest fylgis í borgarstjórastólinn. 19 prósent nefna hann, en Björn Blöndal oddviti Bjartrar framtíðar er töluvert fyrir neðan þá báða með 7,6 prósenta fylgi.

Þar fyrir neðan koma svo Sóley Tómasdóttir oddviti Vinstri grænna, Halldór Auðar Svansson oddviti Pírata, Óskar Bergsson oddviti Framsóknarmanna og Þorleifur Gunnarsson oddviti Dögunnar rekur lestina með 0,7 prósenta fylgi.

En þótt Dagur njóti mest fylgis í embætti borgarstjóra mælist samstarfsflokkurinn Björt framtíð með heldur meira fylgi og Björn Blöndal oddviti hennar hefur lýst yfir áhuga á borgarstjóraembættinu.

Dagur segir mikilvægast í hans huga að meirihlutinn haldi og sá friður og stöðugleiki sem ríkt hafi í borginni undanfarin ár haldist áfram. Þegar hann er spurður um skýringuna á því hvers vegna konur virðist hrifnari  að honum en karlar í þetta embætti, svarar hann:

„Ætli það sé ekki bara gagnkvæmt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×