Fótbolti

Rivaldo leggur skóna á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rivaldo í leik gegn Bayer Leverkusen árið 2001.
Rivaldo í leik gegn Bayer Leverkusen árið 2001. Vísir/Getty
Brasilíski snillingurinn Rivaldo hefur lagt skóna á hilluna, 41 árs að aldri, en hann tilkynnti um þessa ákvörðun sína í gær.

Rivaldo lék með fjölda liða á löngum ferli, en hann átti sín bestu ár hjá Barcelona, þar sem hann lék á árunum 1997-2002.

Rivaldo var spænskur meistari með Barcelona í tvígang og árið 1999 var hann bæði útnefndur besti leikmaður Evrópu (Ballon d‘Or) og besti leikmaður heims.

Hann vann einnig Meistaradeild Evrópu með AC Milan árið 2003.

Hin síðari ár gerðist Rivaldo víðförull og lék m.a. í Grikklandi, Úsbekistan og Angóla.

Þá lék Rivaldo 74 landsleiki fyrir Brasilíu og skoraði í þeim 34 mörk. Hann var hluti af liði Brasilíu sem vann HM 2002 í S-Kóreu og Japan.

Rivaldo starfar nú sem forseti Mogi Mirim Esporte Club í heimalandinu, en sonur hans Rivaldinho leikur með liðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×