Innlent

„Ég nenni ekki lengur að bíða eftir hæstvirtum forsætisráðherra"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Guðmundur nennir ekki að bíða lengur. Katrínu þykir framkoma forsætisráðherra ekki boðleg. Sigmundur Davíð er staddur erlendis.
Guðmundur nennir ekki að bíða lengur. Katrínu þykir framkoma forsætisráðherra ekki boðleg. Sigmundur Davíð er staddur erlendis. Vísir/GVA/Daníel
„Ég nenni ekki lengur að bíða eftir hæstvirtum forsætisráðherra, að hann komi hingað og tali við mig um afnám gjaldeyrishafta og fer fram á að hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, geri það frekar,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í ræðustól á Alþingi rétt í þessu.

Guðmundur sagði frá því að hann hafi lagt inn beiðni um sérstakar viðræður við forsætisráðherra fyrir sjö vikum síðan og engin viðbrögð fengið.

Sigmundur er ekki staddur á Alþingi í dag, en samkvæmt heimildum Vísis er hann staddur erlendis í einkaerindum.

„Ég hef haft beiðni fyrirliggjandi um sérstaka umræðu við hæstvirtan forsætisráðherra síðan 27. Janúar  um að koma hingað og ræða við okkur þingmenn um afnám gjaldeyrishafta og samninga við erlenda kröfuhafa, sem er málefni sem hæstvirtur forsætisráðherra ræddi töluvert og af mikilli ákefð í kosningabaráttunni síðustu.

Þessari beiðni hefur semsagt ekkert verið sinnt. Það er mjög óvenjulegt,“ sagði Guðmundur.

Þetta er ekki eina beiðni Guðmundar um fundi með forsætisráðherra:

„Þar áður var ég með beiðni fyrirliggjandi í marga mánuði um stöðu fullveldisins, sérstaklega í ljósi EES samningsins og ýmissa álitamála tengd stjórnarskránni. Þeirri beiðni var ekkert sinnt.

Og hæstvirtur forsætisráðherra hefur mætt í eina sérstaka umræðu á kjörtímabilinu.“

„Er þetta boðleg framkoma?“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, furðaði sig á þessari framkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar:

„Er þetta boðlega framkoma, virðulegi forseti, gagnvart Alþingi? Ég vil bara fá svör um það því þetta gengur ekki lengur,“ sagði Katrín og bætti við:

„Ég hlýt að spyrja hæstvirtan forseta hvort að Alþingi ætli að láta bjóða sér það að formaður Framsóknarflokksins, svokallaður verkstjóri ríkisstjórnarinnar, hæstvirtur forsætisráðherra, sem líka er háttvirtur þingmaður og hefur ákveðnum skyldum að gegna hér á Alþingi. Ætlar Alþingi að láta bjóða sér það  að hann mæti hér ekki til þess að svara háttvirtum þingmönnum þegar þeir koma fram með fullkomlega gildar beiðnir og óska eftir að eiga orðastað við leiðtoga ríkisstjórnarinnar um brýn mál?

Er það svo að háttvirtir þingmenn þurfi að gera eins og Guðmundur Steingrímsson gerir og beina orðum sínum til annara ráðherra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×