Innlent

Leggja til að stofna hóp til endurskoðunar á lögræðislögum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
MYND/INNANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ
Óformlegur samráðshópur innanríkisráðuneytisins hefur lagt til að skipaður verði formlegur starfshópur til að endurskoða lögræðislög og verklag við framkvæmd þeirra.

Hópurinn hefur skilað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra umræðuskjali. Hópurinn hefur gaumgæft hvernig mannréttindasjónarmið verði best tryggð hvað varðar réttindi og framkvæmd laganna.

Hanna Birna tók við skjalinu á fundi með hópnum nýverið. Á fundinum kom fram ánægja fulltrúa í samráðshópnum um það verklag að eiga slíkt óformlegt samráð sem þau höfðu. Leitaðist hópurinn við að fá fram sem flest sjónarmið með því að kalla til sérfræðinga, embættismanna og fulltrúa samtaka sem minna málefnum geðsjúkra. Allt einstaklinga með margþáttaða þekkingu og reynslu af málaflokknum. Þannig hefði orðið til umræðuskjal og grundvöllur frekari tillagna til að vinna úr í formlegum starfshópi.

Í umræðuskjali hópsins eru teknar saman helstu afurðir fundanna og ýmsar gagnlegar ábendingar um það sem betur má fara í lögum og í framkvæmd þeirra.

Meðal umræðuefna var aðkoma fjölskyldu, félagsmálayfirvalda og lögreglu. Heimildir einstaklinga til að tilnefna aðila sem lagt geti fram beiðni um nauðungarvistun. Möguleg framlenging nauðungarvistunar, vettvangsteymi sérfræðinga, áfallahjálp og meðferð á sjúkrahúsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×