Innlent

Færðu geðdeild á Landspítalanum gjafir fyrir 180 þúsund

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fulltrúar gefenda með starfsfólki deildar 33C og velunnurum hennar.
Fulltrúar gefenda með starfsfólki deildar 33C og velunnurum hennar. mynd/aðsend
Pylsugerðin ehf hefur fært geðdeild 33C á Landspítala að gjöf barnastól, skiptiborð, dýnu, útvörp, skrautmuni, teppi, púða, lampa, blóm og fleira en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landspítalanum.

Þetta keypti Pylsugerðin fyrir 180 þúsund krónur sem söfnuðust þegar fyrirtækið hélt pylsuboð á „International restaurant day“ árið 2013.

Opið var pylsuveitingahús í íbúð í vesturbæ Reykjavíkur þann dag og pylsur, ásamt meðlæti, gefnar gestum og gangandi en um leið gefinn kostur á að leggja fé í söfnun til stuðnings góðu málefni.

Alls söfnuðust 90 þúsund krónur en stuðningsfyrirtæki Pylsugerðarinnar lögðu jafn mikið á móti. Ákveðið var fyrirfram að féð sem safnaðist rynni til geðdeildar á Landspítala.

Í Pylsugerðinni eru 12 félagar. Hópurinn varð til eftir að einn þeirra fékk hrærivél með pylsugerðarstút í jólagjöf. 

Vinahópurinn hefur mikinn á huga á spennandi matargerð sem leiddi hann í kjölfarið út í pylsugerðina og að láta gott af henni leiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×