Fótbolti

Kolbeinn skoraði í sigri Ajax | Fyrsta markið í tæpan mánuð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson kemst nú vonandi aftur á skrið.
Kolbeinn Sigþórsson kemst nú vonandi aftur á skrið. vísir/getty
Hollandsmeistarar Ajax gerðu góða ferð til Rotterdam í dag og unnu Feyenoord á útivelli, 2-1, í 26. umferð hollensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Feyenoord komst yfir, 1-0, á 30. mínútu þegar Ítalinn Graziano Pelle skoraði 19. mark sitt í deildinni en hann er í baráttu við AlfreðFinnbogason um gullskólinn í Hollandi. Alfreð hefur þriggja marka forskot á Ítalann eftir að skora 22. deildarmark sitt í gær.

Kolbeinn Sigþórsson byrjaði á bekknum hjá Ajax í dag eins og í undanförnum deildarleikjum en kom inn á vegna meiðsla Bojans Krkic á 38. mínútu. Það tók íslenska landsliðsframherjann aðeins sjö mínútur að láta til sín taka.

Kolbeinn jafnaði metin, 1-1, með marki af stuttu færi eftir laglegan undirbúning samherja síns sem lék upp að endamörkum og gaf fyrir. Kolbeinn mætti á nærstöngina og skoraði örugglega.

Þetta er fyrsta mark Kolbeins fyrir Ajax í tæpan mánuð en síðast skoraði hann í sigri á Groningen í deildinni sjötta febrúar. Þá kom hann inn á sem varamaður og skoraði líkt og í dag. Í heildina er Kolbeinn búinn að skora átta deildarmörk í 22 leikjum.

Ajax tryggði sér sigurinn í leiknum með marki Joels Veltmans á 72. mínútu, 2-1, en gestirnir voru í heildina betri aðilinn í seinni hálfleik og áttu sigurinn skilið.

Meistararnir eru sem fyrr á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar með 57 stig eftir sigurinn í dag, átta stigum meira en Twente og Vitesse Arnhem sem eru í 2.-3. sæti með 49 stig. Feyenoord er í fjórða sæti með 45 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×