Innlent

Bæta þarf opinbert eftirlit með framleiðslu alifuglakjöts

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Hari
Íslensk yfirvöld þurfa að bæta opinbert eftirlit með framleiðslu alifuglakjöts til að tryggja að það samræmist EES-reglum um matvælaöryggi, samkvæmt Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Þetta er meðal niðurstaðna skýrslu sem birt var í dag. Skýrslan er byggð á úttekt sem gerð var í nóvember í fyrra.

Í skýrslunni segir að á Íslandi sé opinbert eftirlit með framleiðslu alifuglakjöts og öðrum alifuglaafurðum til staðar, sem sé í samræmi við EES-löggjöf. Einnig segir að alhliða þjálfun hafi verið veitt og gæða- og áhættustjórnunarkerfi verið sett upp.

Þó leiddi úttekt ESA í ljós ákveðna annmarka á því opinbera eftirliti sem fram fer hér á landi. Eftirlit í sláturhúsum er á höndum starfsmanna sem hafi ófullnægjandi þjálfun til verksins, án þess að opinberir dýralæknar séu viðstaddir. Þar að auki hafi starfsleyfi verið veitt án þess að skilyrði EES-löggjafar væru að fullu uppfyllt.

Meðal annars var bent á annmarka á hönnun og viðhaldi bygginga og búnaðar sem og verkferlum við þrif. Einnig segir að ófullnægjandi örverufræði eftirlit með alifuglakjöti og öðrum alifuglaafurðum hafi verið við lýði. Þá segir að innra eftirlit  matvælaframleiðenda með eigin framleiðslu sé ófullnægjandi.

Einhverjir af þeim annmörkum sem ESA tekur fram í skýrslunni hafði Matvælastofnun ekki uppgötvað við opinbert eftirlit. Stofnunin hefur tekið athugasemdum sem fram komu í skýrslunni til greina og sett fram aðgerðaráætlun til að bregðast tilmælum ESA.

Skýrsluna, sem er á ensku, má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×