Innlent

Ók á átta ára dreng og stakk af

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Kolbrún Dögg Sigmundsdóttir og sonur hennar sem ekið var á í Njarðvík í gær.
Kolbrún Dögg Sigmundsdóttir og sonur hennar sem ekið var á í Njarðvík í gær. MYND/EINKASAFN
„Ég ætlaði ekki að trúa því þegar sonur minn kom heim í gær, að bíll hefði ekið á hann og bílstjórinn svo farið af vettvangi,“ segir Kolbrún Dögg Sigmundsdóttir, móðir átta ára drengs sem ekið var á í Njarðvík í gær.

Ekið var á drenginn um klukkan fjögur í gær við Tjarnarbraut en sá sem ók bifreiðinni hugaði ekki að drengnum og hélt för sinni áfram.

„Hann var að koma af fótboltaæfingu. Hann segist hafa litið til beggja hliða áður en hann fór yfir götuna,“ segir Kolbrún. Sonur hennar lýsi því þannig að bíllinn hafi ekið á hliðina á honum og hann hafi dottið og rúllaði áfram og upp á gangstétt.

„Mér hefði fundist réttast hjá bílstjóranum að stoppa og athuga með hann og keyra hann annað hvort heim eða hringja á lögregluna,“ segir Kolbrún. „Hann var allur útataður blóði.“

Kolbrún vonar að bílstjórinn gefi sig fram þó hún segist ekki endilega búast við því.

Lögreglan á Suðurnesjum óskar eftir upplýsingum vegna málsins. Bíllinn sem ók á drenginn er hvítur og líklega skutbíll. Drengurinn getur að sögn móður sinnar lýst bílstjóranum og segir hann karlmann, líklega á aldrinum 20 til 30 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×