Fótbolti

Gott fyrir Ragnar að fara í sterkari deild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar í leik með FCK.
Ragnar í leik með FCK. Vísir/Getty
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari, var ánægður með að Ragnar Sigurðsson hafi tekið stökkið yfir til Rússlands.

Ragnar var á dögunum keyptur til Krasnodar sem leikur í rússnesku úrvalsdeildinni. Í dag var hann valinn í íslenska landsliðið sem mætir Wales í næstu viku en rússneska deildin hefst svo um miðjan næsta mánuð.

Ragnar var áður á mála hjá FCK í Danmörku en atvinnumannaferilinn hóf hann í Svíþjóð á sínum tíma.

„Hann er að fara í sterkari deild og því er þetta gott skref fyrir hann,“ sagði Lagerbäck á blaðamannafundi KSÍ í dag. „En þessu fylgja líka lengri ferðalög. Ég held að Krasnodar þurfi að ferðast í minnst 4-5 tíma í hvern einasta útileik.“

„En þetta er jákvætt fyrir hann. Þetta er ný áskorun eftir árin í Svíþjóð og Danmörku - það er að segja ef hann fær að spila.“

Margir lykilmenn í íslenska landsliðinu hafa minna fengið að spila með sínum félagsliðum að undanförnu og það er áhyggjuefni fyrir íslenska landsliðið.

„Auðvitað vill maður að þessi strákar fái að spila reglulega,“ sagði Lagerbäck. „Það flækir líka stöðuna fyrir okkur þjálfarana því það er oft erfitt að meta hvort að leikmaður sem fær fá tækifæri í sterku liði sé í betra standi en leikmaður sem spilar alltaf í til dæmis Noregi eða Svíþjóð.“

Meðal þeirra leikmanna sem hafa lítið spilað að undanförnu má nefna Gylfa Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson - sem báðir spila í ensku úrvalsdeildinni - og Birki Bjarnason hjá Sampdoria á Ítalíu.

„Samkvæmt minni reynslu er erfiðara fyrir yngri leikmenn að sitja mikið á bekknum en þá eldri. Við erum með leikmenn sem eru enn ungir og hafa tekið út mikinn þroska á síðustu árum,“ sagði Lagerbäck.

„Vonandi er það þróun sem mun halda áfram. Það er mikil framtíð í liðinu okkar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×