Eins og Vísir greindi frá í morgun þá hafði ónefndur leigubílsstjóri samband við fréttastofu í gær og greindi frá því að atvinnubílstjórar væru komnir að þolmörkum vegna ólöglegrar skutlþjónustu sem finna má í gegnum facebook.
„Mér skilst að allar stöðvarnar séu búnar að kæra þetta fólk til samgöngustofu og einnig höfum við á Borgarbílastöðinni kært til lögreglunnar. Ekkert hefur þó verið gert og svörin sem við höfum fengið frá lögreglu eru fyrir neðan allar hellur," sagði bílstjórinn í samtali við Vísi.
„Fram kemur í fréttinni um málið að umrædd skutlþjónustu sé ólögleg en því andmæli ég,“ segir einn af stjórnendum hópsins í samtali við Vísi.
„Meðlimir hópsins setja inn færslur með símanúmeri sínu á vegg hópsins. Þeir tilkynna hvort þeir séu á ferðinni eða hvort að þeim vanti far. Þeim sem vantar far geta þá hringt í þá sem eru á ferðinni og þeir skutlað viðkomandi.“
„Hinsvegar taka sumir bensínpening fyrir farið. Líklegast telja leigubílstjórar að það sé ólögmæt starfsemi. Þetta er hinsvegar ekki ólögmætt.“
Stjórnandi síðunnar bendir því næst á úrskurð Samgönguráðuneytisins sér til stuðnings.
„Þar var á ferðinni svipað dæmi, þegar fólk gat farið inn á vefsíðuna farthegar.is og fundið skutlara til að skutla sér gegn gjaldi. Vafi þótti leika á því hvort að þessi starfsemi félli undir lög um fólksflutninga og farmflutninga og/eða lög um leigubifreiðar.“
Fram kemur í niðurstöðu Samgönguráðuneytisins að umrædd starfsemi hafi ekki verið metin ólögleg.

„Að því sögðu, er óhætt að segja að það sé enginn grunnur fyrir ásökunum leigubílstjóra og alveg út úr kortinu að kalla þetta ólögmæta starfsemi þar sem Facebook-hópurinn er nánast hliðstæða þessarar vefsíðu.“
Í lögum um leigubílaakstur segir:
„Leigubifreið til fólksflutninga skal auðkennd með þakljósi samkvæmt ákvæðum reglugerðar um gerð og búnað bifreiða. Ennfremur skal leigubifreið, sem ekur frá bifreiðastöð, auðkennd með merki stöðvarinnar neðarlega fyrir miðju í framrúðu og stöðvarnúmeri á áberandi hátt ofarlega vinstra megin í afturrúðu bifreiðar. Ökumaður leigubifreiðar skal ávallt hafa á sér skilríki skv. síðustu mgr. 6. gr. og 12. gr. sem sýnir að hann hafi tilskilin atvinnuleyfi eða heimild til aksturs í forföllum atvinnuleyfishafa."
Þá kemur einnig fram að brot gegn þessum lögum varði fjársektum og/eða sviptingu á leyfi nema að þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.