Innlent

Regluverkið verði tilbúið fyrir náttúruhamfarir

Birta Björnsdóttir skrifar
Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum.
Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum.
Rauði kross Íslands lét á dögunum gera úttekt á þeim þáttum í íslensku laga- og reglugerðarumhverfi sem geta hindrað eða hamlað aðkomu erlends hjálparliðs hingað til lands ef hér skapast neyðarástand.

„Skýrslan er hluti af evrópsku verkefni sem gengur út á að skoða hvort lönd Evrópu eru viðbúin að taka við aðstoð þegar þörf krefur," segir Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum.

„Við erum fámennt viðbragðslið í stóru landi þar sem geta orðið fjölþættar náttúruhamfarir og alvarlegir atburðir."

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að ýmsu er ábótavant í íslensku lagaumhverfi ef og þegar eitthvað kemur uppá og við þurfum aðstoð erlendis frá.

Meðal þess sem vantar eru ákvæði um starfsréttindi erlendra lækna og annars fagfólks, skráningar erlendra neyðarökutækja og innflutningur á lyfjum, svo fátt eitt sé nefnt. Þá vantar einnig inn ákvæði um hver það er sem myndi sækja eftir utanaðkomandi aðstoð.

„Það geta alltaf komið upp þessir atburðir þar sem við þurfum hreinlega að leita út fyrir landsteinana eftir aðstoð, hvort sem hún er í formi sérfræðinga eða að við þurfum að kalla inn heilu hópana af fólki með búnað og tæki. Við þurfum að tryggja það að hér séu ekki neinar hindranir í kerfinu eða íslenskri stjórnsýslu sem koma í veg fyrir það að fólk geti hafið störf sem allra fyrst," segir Jón Brynjar.

Nú þegar búið er að benda á vankannta regluverksins hlýtur næsta mál á dagskrá vera að vinna að úrbótum. Málþing verður um skýrsluna í næstu viku og niðurstöðurnar verða í kjölfarið kynntar fyrir stjórnsýslunni og löggjafarvaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×