Erlent

„Þetta gefur góða mynd af því hvernig náttúran virkar“

Jóhannes Stefánsson skrifar
Lífeðlissiðfræðingur segir að náttúran verði að fá að hafa sinn gang.
Lífeðlissiðfræðingur segir að náttúran verði að fá að hafa sinn gang.
„Þetta gefur góða mynd af því hvernig náttúran virkar," segir Peter Sandoe, prófessor í lífeðlissiðfræði við Kaupmannahafnarháskóla um aflífun gíraffans Maríusar.

Aflífun Maríusar og framferði starfsmanna dýragarðsins í Kaupmannahöfn hafa farið fyrir brjóstið á mörgum, en talsmenn dýragarðsins og sérfræðingar úr ýmsum áttum segja að hún sé fyllilega réttlætanleg og besti kosturinn af mörgum mögulegum. Engu að síður hefur starfsfólki dýragarðsins verið hótað lífláti.

Gíraffar hálsbrotna ef það á að reyna að gelda þá

Talsmaður Evrópusamtaka dýragarða og lagardýrasafna (EAZA) segir að Marius hafi ekki getað komið að neinu gagni við ræktun gíraffa og að of mikil hætta hafi verið á innræktun í samtali við BBC. Allir möguleikar hafi verið skoðaðir í málinu, en aflífun Mariusar hafi verið sá eini sem var vænlegur í stöðunni. Þegar framtíðarhorfur tegundarinnar væru í forgangi þyrfti stundum að taka ákvarðanir sem mörgum kunna að þykja ógeðslegar.

Joerg Jebram, sem er yfirmaður verkefnis sem miðar að vernd gíraffa í Evrópu, sagði í samtali við fréttastofu AP að gelding eða einhverskonar getnaðarvarnir væru ekki álitlegir kostir í tilfelli gíraffa. Ástæðan er sú að báðir kostirnir hafa það í för með sér að svæfa þarf dýrin, sem er mjög áhættusamt. Áhættan felst í því að gíraffar eru mjög líklegir til að brjóta á sér hálsinn þegar þeir falla til jarðar af völdum deyfingar.

Gefur mjög skýra mynd af því hvernig náttúran virkar

Peter Sandoe, prófessor í lífeðlissiðfræði við Kaupmannahafnarháskóla, segir aflífun Maríusar segir að ákvörðunin sé fyllilega réttlætanleg. „Þegar ung börn geta séð gíraffan verða að fæðu fyrir ljón, gefur það góða mynd af því hvernig náttúran virkar," segir Peter.

Peter segir það daglegt brauð að gíraffar deyi af náttúrulegum orsökum á sléttunum. „Margir deyja ungir, drepnir af ljónum, úr sjúkdómu, slysum eða úr hungri," segir Peter.

Aðspurður um það hvort ekki væri betra að reyna að koma í veg fyrir getnað dýranna á einn eða annan hátt segir Peter: „Við erum nú þegar að koma í veg fyrir stóran hluta af náttúrulegri hegðun dýranna með því að læsa þau í búrum. Ef við tökum af þeim möguleikann á að fjölga sér, þá er það enn meira inngrip inn í náttúrulegt líf þeirra," segir Peter Sandoe að lokum.

BBC greinir frá málinu á ítarlegan hátt.


Tengdar fréttir

Mikil reiði eftir að gíraffinn Marius var aflífaður

Dýraverndunarsinnar eru æfir eftir að dýragarðurinn í Kaupmannahöfn ákvað að aflífa 18 mánaða heilbrigðan gíraffa. Dýragarðurinn taldi sig knúinn til að aflífa gíraffann vegna plássleysis og hættu á innræktun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×