Enski boltinn

Dýrasti leikmaður Fulham ekki í formi

Konstantinos Mitroglou þarf að fara koma sér í stand.
Konstantinos Mitroglou þarf að fara koma sér í stand. Vísir/Getty
Rene Meulensteen, knattspyrnustjóri Fulham, vonast til að geta farið að nota gríska framherjann Konstantinos Mitroglou í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Fulham tapaði fyrir Liverpool, 3-2, á heimavelli í gærkvöldi og er sem fyrr rótfast við botn deildarinnar.

Félagið borgaði Olympiacos 11,5 milljónir punda fyrir gríska framherjann í janúarglugganum, það mesta sem félagið hefur pungað út fyrir leikmann, en hefur ekki enn getað notið krafta hans þar sem hann er ekki í formi.

„Við vinnum nú hörðum höndum að því að koma Mitroglou í form. Þess vegna létum við hann spila með U21 árs liðinu. Það gerði honum gott,“ sagði Meulensteen eftir tapið í gær.

Mitroglou skoraði 14 mörk fyrir Olympiacos fyrir jól og var öflugur í Meistaradeildinni. Fulham þarf svo sannarlega á kröftum hans að halda en þrátt fyrir stöðu liðsins er knattspyrnustjórinn bjartsýnn.

„Það sjá allir að liðið er að bæta sig. Nýju leikmennirnir eiga sinn þátt í því,“ segir Rene Meulensteen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×