Innlent

Heilahristingur sem byggir upp góða sjálfsmynd

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Haraldur Finnsson og Eva Rós Anh Phuong Le skoða snúin stærðfræðidæmi saman.
Haraldur Finnsson og Eva Rós Anh Phuong Le skoða snúin stærðfræðidæmi saman. VÍSIR/VALLI

Haraldur Finnsson og Eva Rós Anh Phuong Le eiga ekki sérlega margt sameiginlegt en hittast þó einu sinni í viku og eyða góðri stund saman.

Haraldur er sjálfboðaliði í verkefninu Heilahristingur og aðstoðar börn af erlendum uppruna með heimanámið. Eva Rós er í tíunda bekk og hefur mætt í hverri viku frá því að hún var sex ára. Þau segja bæði að verkefnið sé gefandi og afar mikilvægt.

„Ég flutti til Íslands þegar ég var tveggja ára en náði ekki tökum á tungumálinu fyrr en ég fór í skóla og fékk aðstoð við heimanámið,“ segir Eva Rós. Hún segist enn eiga erfitt með að skilja til dæmis þjóðsögur og löng, erfið orð. „Um daginn kom í prófi dæmi um gamla, íslenska tónlist og ég þekkti ekki eitt einasta lag.“

Eva Rós segir foreldra sína ekki geta aðstoðað sig við lærdóminn og því fari hún í hverri viku og þiggi aðstoð. „Sumir sjálfboðaliðarnir í heimanáminu eru orðnir vinir mínir og gott að spyrja þá um alls konar hluti. Enda hitti ég ekki marga Íslendinga, nema bara í skólanum.“

Haraldur segir sömu börnin koma aftur og aftur og því skapist fallegur vinskapur.

„Það sem hvetur mig mest í þessu starfi er hvað maður sér miklar framfarir hjá einstaklingnum, hreinlega stökkbreytingar. Framfarirnar eru ekki síst fólgnar í því að börnin fá sjálfstraust og þeim finnst þau ráða við námið. Mér finnst verst að það komi ekki fleiri krakkar, því það er víst að þörfin er til staðar.“

Haraldur segir skólana og kennara í lykilhlutverki við að vísa börnunum í heimanámsaðstoðina. „Þessi börn eru ekki endilega framfærin og eru feimin við að koma. Það er svo margt annað sem þau þurfa að takast á við, að búa í nýju samfélagi og læra tungumálið. Einnig eru mismunandi aðstæður heima fyrir og þá þarf skólinn að vera öflugur að benda á þau úrræði sem eru til staðar.“

Haraldur er gamall skólahundur, eins og hann segir sjálfur, og starfaði sem skólastjóri í fjöldamörg ár. Nú er hann hættur en þegar hann sá kynningu hjá Rauða krossinum á verkefninu kviknaði eitthvað í honum.

„En maður þarf ekki að vera kennari til að vera sjálfboðaliði. Forsendurnar eru að kunna tungumálið og vera til staðar fyrir börnin. Fyrst og fremst er þetta ótrúlega gefandi starf því maður finnur hvað þetta skiptir miklu máli.“

Kristín Vilhjálmsdóttir hefur stýrt verkefninu frá upphafi. VÍSIR/VALLI

Börnin læra að nota bókasafnið
Verkefnið Heilahristingur, heimanámsaðstoð fyrir börn, hefur verið starfrækt í fimm ár í þeirri mynd sem það er núna.

Kristín Vilhjálmsdóttir hefur stýrt verkefninu frá byrjun.

„Fyrir utan heimanámsaðstoðina þá lítum við á þetta sem menningaruppeldi, að kenna börnunum að nota bókasafnið. Einnig er þetta gott fyrir félagsleg tengsl, að koma og hitta vini og kynnast nýjum þvert á þjóðerni.“

Kristín tekur fram að aðstoðin sé ekki eingöngu fyrir börn af erlendum uppruna heldur alla nemendur sem þurfa á stuðningi að halda. Stundum reynist þó erfitt að koma upplýsingum til nemenda.

„Best er þegar börnin koma með bekknum sínum, fá kynningu á verkefninu og skoða bókasafnið. Mörg börn hafa aldrei farið inn á bókasafn en við höfum séð að þau sem koma nota bókasafnið í auknum mæli og draga til dæmis fjölskylduna með sér um helgar.“

Verkefnið er samstarf Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Borgarbókasafnsins og nú nýlega kom skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar inn í verkefnið. Kristín vonar að það muni verða til þess að fleiri börn nýti sér aðstoðina.

„Það gengur hins vegar vel að fá sjálfboðaliða, hér erum við með fólk á öllum aldri. Framhaldsskólanemendur sem eru frábærar fyrirmyndir fyrir börnin, og eldra fólk sem er hætt að vinna og hefur nægan tíma til að spjalla, hlusta og veita góð ráð.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.