Innlent

Lásasmiðir í hættu: Öryggi ekki bætt eftir atvik í Hraunbæ

Hrund Þórsdóttir skrifar
Þegar lögregla var kölluð að íbúð í Hraunbæ í desember síðastliðnum vegna hugsanlegra byssuhvella og íbúi hunsaði óskir um að opna fyrir lögreglu, kallaði hún á lásasmið til að opna dyrnar að íbúð hans. Þegar það hafði tekist skaut íbúinn á lögreglumennina og var lásasmiðurinn í mikilli hættu. Í útkalli lásasmiðsins kom ekki fram að vopnaður maður væri líklega inni í íbúðinni og var hann óvarinn á vettvangi. Hann slapp ómeiddur frá atvikinu en þáði áfallahjálp eftir það.

Lásasmiður sem fréttastofa ræddi við í dag segir útköll sem þetta hafa átt sér stað endurtekið og að fleiri í stéttinni hafi lagt sig í hættu í aðgerðum lögreglu. Þannig hafi hann sjálfur tekið þátt í aðgerð þar sem fjórir vopnaðir lögreglumenn hafi staðið að baki honum þegar brjótast þurfti inn í íbúð ofbeldismanns sem ljóst hafi verið að væri mjög hættulegur. Þá segir hann uppákomur sem þessar þaggaðar niður þar sem lögreglan sé mikilvægur viðskiptavinur lásasmiða.

Hann segir lásasmiði hafa rætt þessi mál sín á milli og að ýmsir hafi talið tímaspursmál að uppákoma eins og sú sem átti sér stað í Hraunbænum, yrði að veruleika. Loks bætir hann við að eftir því sem hann best viti hafi atvikið í Hraunbænum í desember ekki orðið til þess að bæta öryggisreglur og að ekki sé í gangi vinna til að fyrirbyggja að uppákoman endurtaki sig.

Haft var samband við lögregluna í Reykjavík vegna fréttarinnar en hún kaus að tjá sig ekki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×