Innlent

Lærðu að ganga í hálku

Baldvin Þormóðsson skrifar
Íslendingar mættu tileinka sér hálkugöngulag Sama og Inúíta.
Íslendingar mættu tileinka sér hálkugöngulag Sama og Inúíta. visir/anton
Í köldustu mánuðum ársins verða fréttir af hálkuslysum á Íslandi æ algengari. Sömu sögu er hins vegar ekki að segja um Sama og Inúíta. Svo virðist sem að þjóðflokkarnir hafi viðhaldið aldagömlu göngulagi sem hannað er til þess að ganga á klaka.

Þeir hafa einhvern veginn þróað þetta með sér í gegnum tíðina. Þeir geta gengið langar vegalengdir þvert yfir hálku án þess að detta, sagði Sigurður Helgi Guðjónsson í Reykjavík síðdegis fyrr í dag, en hann er einmitt hálfur Sami.

Þeir ganga gleiðir, með hnén laus og mjaðmirnar líka. Síðan hafa þeir hendur með síðum, svona eins og mörgæsir. Líkaminn verður að vera algjörlega afslappaður.

Hann útskýrði síðan hvernig þeir halla sér örlítið fram og taka stutt skref á ágætis hraða. Þetta göngulag Sama og Inúíta virðist því vera algjör andstæða við stirðar hreyfingar okkar Íslendinga þegar við reynum að fóta okkur í hálkunni.

Það væri mikið heillaráð að hefja þessa göngulist til vegs og virðingar og fá Sama og Inúíta til að koma okkur á sporið, sagði Sigurður Helgi.

Þess má geta að 6. febrúar er þjóðhátíðardagur Sama, en nú eru liðin 97 ár síðan fyrsta þingsamkoma Sama var haldin í Þrándheimum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×