Það var margt um manninn á UT messunni í dag en messan er haldin í Hörpu.
Líkt og við greindum frá í fréttum okkar í gær, kennir þar ýmissa grasa og er messan einn stæsti viðburður tæknigeirans hér á landi.
Þar koma saman um 80 fyrirtæki og reiknað er með allt að fimm þúsund gestum.
Það var því þröngt á þingi á messunni í dag þegar fréttastofa leit við en þar gafst almenningi kostur á að kynna sér allt það sem undur tækninnar hefur uppá að bjóða.
Raðir mynduðust við bás tölvuleikjasérfræðinganna CCP, þar sem þeir höfðu til sýnis Valkyrie, leikinn þrívíða.
Einnig vakti lukku gagnvirkur skjávarpi sem hægt er að teikna á, ríkisskattstjóri kenndi skattborgurum á rafræn skil að ógleymdum Svarthöfða sem bauð upp á ljósasverðbardaga.
Í meðfylgjandi myndkeiði má sjá myndband af fjörinu í Hörpu í dag.
Fjölmenni á UT messu
María Lilja Þrastardóttir skrifar