Innlent

Skyndihjálparmaður ársins útnefndur í dag

Bjarki Ármannsson skrifar
Bylgja og Patrekur við athöfnina í dag.
Bylgja og Patrekur við athöfnina í dag. Vísir/Vilhelm
 Bylgja Dögg Sigurðardóttir hlaut í dag viðurkenningu Rauða krossins á Íslandi sem Skyndihjálparmaður ársins 2013. Þetta var tilkynnt í húsi Rauða krossins í hádeginu í dag.

Nafnbótina hlýtur hún fyrir að sýna hárrétt viðbrögð þegar hún kom að ungum manni sem hafði fengið hjartastopp í Breiðholti í október síðastliðnum. Bylgja, sem er 24 ára gömul, hefur oft farið á skyndihjálparnámskeið og hnoðaði bringu mannsins þar til að lögregla mætti á svæðið og tók við endurlífguninni.

Ungi maðurinn, háskólanemi að nafni Patrekur Maron Magnússon, var þá fluttur á spítala og hefur að sögn náð sér merkilega vel eftir atburðinn.

Þrír aðrir einstaklingar hljóta einnig viðurkenningu Rauða krossins í dag fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt.  Þeir eru: Heiðar Arnfinnsson, Mosfellsbæ, sem bjargaði tengdaföður sínum eftir að hann féll við byggingu sumarbústaðar við Meðalfellsvatn og hrygg- og hálsbrotnaði; Heimir Hansson og Sveinbjörn Björnsson, Ísafirði, sem hnoðuðu lífi í nágranna sinn eftir að hann fór í hjartastopp við snjómokstur; og Jóhanna Guðmundsdóttir búsett í Flórída, sem kom konu til aðstoðar eftir að hún fór í hjartastopp rétt fyrir jólin í konuboði í Skerjafirðinum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×