Innlent

Hefja álagningu stöðubrotsgjalda við Keflavíkurvöll

Stefán Árni Pálsson skrifar
Keflavíkurvöllur.
Keflavíkurvöllur. visir/valli
Nú hefur verið tilkynnt að Bílastæðasjóður Sandgerðisbæjar hafi um áramótin hafið álagningu stöðubrotsgjalda á ökumenn bifreiða sem leggja bílum sínum ólöglega við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Vegna fjölgunar farþega um flugstöðina síðustu ár hefur oft skapast slysahætta og tafir orðið vegna bifreiða sem lagt er ólöglega við flugstöðina. Þetta á sérstaklega við um stæði fyrir framan inngang flugstöðvarinnar sem eru einungis ætluð þeim sem eru að skila af sér farþegum.

Í þeim stæðum er ólöglegt að leggja bifreið í lengri tíma en tekur að hleypa farþegum út og losa farangur, jafnvel þótt ökumaður yfirgefi ekki bifreiðina.

Bílastæðasjóður Sandgerðisbæjar annast innheimtu vegna stöðubrota en starfsmenn Isavia á Keflavíkurflugvelli annast stæðavörslu fyrir hönd sjóðsins og veita ökumönnum upplýsingar um bifreiðastæði sem nóg er af við flugstöðina.

Álagning vegna stöðubrota er í samræmi við umferðarlög og sambærileg við stöðubrotsgjöld annarsstaðar á landinu. Hagnaður vegna stöðubrota rennur til framkvæmda við umferðarmannvirki við flugstöðina.

Til þess að mæta þörfum ökumanna sem vilja skreppa inn í flugstöðina eru fyrstu 15 mínúturnar á skammtímastæðum komu- og brottfararmegin við flugstöðina gjaldfrjálsar. 

Þannig geta ökumenn nýtt stöðvunarsvæðið næst innganginum til þess að skila farþegum og farangri en skammtímastæðin án kostnaðar í 15 mínútur.  Ef þörf er á lengri dvöl í flugstöðinni kostar fyrsta klukkustundin á skammtímastæðum 150 kr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×