Innlent

Lögreglumaðurinn ætlar í mál vegna lekans í kynferðisbrotamálinu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður lögreglumannsins.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður lögreglumannsins.
Lögreglumaðurinn sem var til rannsóknar vegna meints kynferðisbrots ætlar að leita réttar síns gagnvart aðstandendum vefsíðu sem birtu rannsóknargögn í máli hans.

Þetta staðfestir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður mannsins.

„Þessi birting er fráleit,“ segir Vilhjálmur: „Ég velti því fyrir mér hvaða ráð ég eigi að gefa umbjóðendum mínum  sem eru boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglu, annað hvort sem vitni eða sakborningur. Sakborningar og vitni verða að geta treyst því að geta gefið skýrslu lögreglu án þess að eiga það á hættu að gögnin verði birt almenningi á netinu. Hér er um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða sem eiga ekkert erindi við almenning.“

Lögreglumaðurinn var fyrir tveimur árum kærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlku. Stúlkan, sem nú á sautjánda aldurári, var níu ára þegar meint brot áttu sér stað. Málið var til rannsóknar hjá lögreglunni á Akranesi. Það kom meðal annars inn á borð utanríkisráðuneytisins, ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara en var að lokum látið niður falla.

Eins og fram kom á Vísi voru öll gögn í málinu, þar á meðal yfirheyrslur yfir sakborningum og vitnum, birt á vefsíðu en móðir stúlkunnar gaf sitt leyfi fyrir birtingu gagnanna. Ríkissaksóknari íhugar nú að aðhafast í málinu.

Vilhjálmi þykir málið alvarlegt. „Hvers konar manneskjur eru það sem taka slíka ákvörðun fyrir börn að viðkvæm gögn um þau verði í vörslum ókunnugra um aldir alda?“

Vilhjálmur tekur undir skoðanir Brynjars Níelssonar, sem sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að birting svona gagna vegi að réttarríkinu. „Já, þetta vegur með mjög alvarlegum hætti að stoðum réttarríksins. Meðal annars af þeirri ástæðu höfum við ákveðið að aðhafast í málinu. Þetta þarf að stöðva,“ segir Vilhjálmur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×