Innlent

Fór í kynleiðréttingu eftir að hafa verið fjölskyldufaðir í 35 ár

Ásgeir Erlendsson skrifar
„Daglegt líf gekk sinn vanagang og maður reyndi að láta það ganga. Ég var svona tiltölulega ánægð með lífið og tilveruna, þannig lagað. Allavega út á við. Alltaf var hugurinn á yfirsnúningi útaf mínu sálarástandi.

Þetta sagði Anna Margrét Grétarsdóttir í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld. Anna Margrét fæddist karlmaður og lifði sem fjölskyldufaðirinn Ágúst Már fram á sextugsaldur.  Á yfirborðinu var líf Ágústs ekkert frábrugðið lífi venjulegs íslensks karlmanns.

Fjölskyldufaðirinn átti sér lítið leyndamál. Þegar farið var út fyrir landsteinana voru kvenmannsföt reglulega tekin með og notuð í einrúmi í lok dags.

„Það kom fyrir að  maður var að fara eitthvert erlendis, á vegum fyrirtækis eða ráðuneytis, þá var alltaf eitthvað í einu horninu á töskunni eða sér lítil taska sem í var búningur. Hann var svo notaður inn á herbergi eftir erfiði dagsins með glas í hönd.“

Anna  Margrét fór leynt með búningana og passaði sig á að vera ein þegar þeir voru mátaðir. Hún áttaði sig á því snemma að hún væri í röngum líkama en segist ekkert hafa geta gert.“

„Það er ekkert í stöðunni, þú gertur ekkert snúið þér. Þetta hlýtur að hverfa eftir því sem þú eldist.“

Um tvítugt stofnaði hún fjölskyldu, gekk í hjónaband árið 1976 og börnin tvö komu skömmu síðar. Lífið gekk sinn vanagang í 35 ár en eftir langan tíma í hjónabandi varð Önnu ljóst að breytinga væri þörf.

„Svona undir niðri var þessi hugsun í gangi. Ég var að blekkja sjálfa mig og kannski ekki síst fólkið í kringum mig. Það er oft það sárasta.“

Upp úr fimmtugu sá Anna að þetta gekk ekki lengur og skilnaður var því óumflýjanlegur. Fyrir um sex árum hófst undirbúningur kynleiðréttingaferlisins sem lauk í maí á síðasta ári.

„Já mér líður betur, það er ekki hægt að segja annað.“

Anna segist vera fullviss um að hér á landi séu fjölskyldumenn í sömu stöðu og hún sjálf var í á sínum tíma. „Já elskan mín góða, fleiri en einn og fleiri en tveir.“

Það þarf mikið hugrekki til að koma fram í sjónvarpi og lýsa þessu flókna ferli. Anna Margrét ákvað að segja sögu sína til að fræða fólk og einnig til gefa því innsýn inn í þann margslungna hugarheim sem konur eins og hún þurfa að kljást við áður en farið er út í sjálfa kynleiðréttinguna.

„Þú ert alltaf að hugsa um fordómana sem þú kemur til með að verða fyrir.“

Þegar allt kom til alls var henni vel tekið af vinnuveitendum  og vinum er hún opinberaði leyndarmálið. Anna stundar nú nám við Menntaskólann í Kópavogi og horfir björtum augum til framtíðar.

„Það þýðir ekkert að sjá eftir hlutunum heldur bara horfa fram á veginn. Það er það eina sem gildir.“

Viðtalið við Önnu Margréti má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×