Erlent

Kalashnikov kvaldist af samviskubiti

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mikhaíl Kalashníkov.
Mikhaíl Kalashníkov. vísir/AP
Mikhaíl Kalashníkov, rifflaframleiðandinn rússneski, spurði sjálfan sig ítrekað hvort hann bæri ábyrgð á þeim, sem drepnir væru með rifflinum sem nefndur var í höfuðið á honum.

„Sársaukinn í sál minni er óbærilegur. Ég spyr mig stöðugt sömu spurningarinnar, sem engin leið er að fá svör við: Ef árásarrifillinn minn hefur svipt fólk lífi, þýðir það þá að ég, Mikhaíl Kalashníkov, bóndasonur og réttrúaður kristinn maður, beri ábyrgð á dauða fólks," skrifaði hann í bréfi sem hann sendi til Kirills, patríarka rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn.

Kalashnikov lést í síðasta mánuði, 94 ára gamall. Riffillinn AK-47 er hefur áratugum saman verið mest selda skotvopn í heimi, og er talið að um 100 milljónir eintaka sé að finna í fórum fólks víða um heim.

Elena dóttir hans segir, að sögn rússnesku fréttastofunnar Izvestía, að sóknarprestur föður síns hafi hugsanlega hjálpað honum við að skrifa bréfið, sem er tvær vélritaðar síður og undirritað af föður hennar.

Bréfið þykir stangast verulega á við fyrri yfirlýsingar hans í fjölmiðlum og á öðrum opinberum vettvangi.

„Ég sef vel,” sagði hann til dæmis í viðtali við fréttastofuna AP árið 2007. „Það er stjórnmálamönnunum að kenna að þeir hafi ekki getað komist að samkomulagi og grípi til ofbeldis.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×