Innlent

Jafn mörg banaslys í umferðinni af völdum löglegra og ólöglegra lyfja

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Þríhyrningsmerkt lyf, og önnur ómerkt geta haft mikil áhrif á hæfni til aksturs. Þó er það hverjum og einum falið að meta hæfni sína hverju sinni.

Á árunum 2003-2012 má rekja fjögur prósent banaslysa í umferðinni til aksturs undir áhrifum lyfja eða sex slys.

Athygli vekur að sami fjöldi, fjögur prósent eða 6 manneskjur hafa valdið banaslysi í umferðinni undir áhrifum ólöglegra fíkniefna.

Til samanburðar kemur Áfengi, eitt og sér, við sögu í 28 banaslysum eða um átján prósent tilvika.

Vakni grunur lögreglu að manneskja sé óhæf til aksturs sökum lyfjadrunga getur hún fært viðkomandi upp á lögreglustöð. Þar fer fram mat á hæfni ökumannsins með aðstoð læknis sem oft sendir viðkomandi aftur út í umferðina. Samkvæmt heimildum ber lögreglu og lækni sjaldnast saman um matið.

Íslendingar eiga, samkvæmt skýrslu OECD, heimsmet í notkun þunglyndislyfja. Lyfin skerða flest viðbragðshæfni að minsta kosti á fyrstu vikum inntöku.

Í lögum er skýrt kveðið á um áfengis og fíkniefnaakstur en ekkert er tilgreint sérstaklega um þríhyrningsmerkt lyf. Vissulega er tekið fram í lögunum að ökumaður skuli vera „líkamlega og andlega fær um að stjórna ökutæki því, sem hann fer með.“  

Þessi grein er því undirorpin skilningi hvers og eins á sinni eigin hæfni.

Þá er spurningin, þarf ekki að skerpa á þessu ákvæði laganna til að varna fjölgun slysa með vaxandi notkun lyfja. 

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) hefur ekki tekist nægjanlega vel til að framfylgja ákvæðum um heilbrigðiskröfur sem gerðar eru til ökumanna í íslenskum lögum og reglum.

Í meðfylgjandi myndskeiði úr kvöldfréttum Stöðvar tvö má sjá viðtal við forstöðumann umferðarslysanefndar RNSA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×