Innlent

Hesturinn Skuggi málar myndir

Hestum er margt til lista lagt en fæstir þeirra geta þó málað myndir. Hesturinn Skuggi er undantekning þar á.

Jónína Valgerður Örvar er fimmtán ára hestakona og eigandi Skugga. Í fyrra komst hann í fréttirnar fyrir að kunna að telja, en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Jónína hefur nefnilega kennt honum að mála myndir.

„Mig langaði nú bara að eiga mynd eftir hann og því ákvað ég að kenna honum þetta. Ég blanda litina og rétti honum penslana. Hann bítur svo í þá og málar á blaðið. Ég á orðið slatta af myndum eftir Skugga minn heima,“ segir Jónína.

Það má segja að Skuggi sé sannkallaður sirkúshestur, en ásamt því að kunna að telja og mála getur hann prjónað, sparkað í bolta, hrist höfuðið og brosað eftir pöntunum.

„Hann er æðislegur karakter og þvílíkt athyglissjúkur. Þess vegna var ekkert mál að kenna honum þetta,“ segir Jónína.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×