Fótbolti

Sigurmark Kolbeins kom Ajax á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson svaraði gagnrýnisröddunum í Hollandi með því að tryggja Ajax 1-0 sigur á PSV Eindhoven í fyrsta umferð hollensku úrvalsdeildarinnar eftir jólafríið. Þetta var gríðarlega mikilvægt mark fyrir Ajax í baráttunni um hollenska meistaratitilinn.

Kolbeinn skoraði eina mark leiksins á 64. mínútu en hann skoraði markið með laglegum skutluskalla eftir fyrirgjöf frá Lasse Schöne. Kolbeinn var tekinn af velli á 75. mínúta.

Sigurinn kom Ajax upp fyrir Vitesse á markatölu en liðin hafa bæði 40 stig í efstu tveimur sætum hollensku úrvalsdeildarinnar. Twente er síðan þremur stigum á eftir Ajax og Vitesse.

Þetta var fyrsta deildarmark Kolbeins síðan 19. október en hann var búinn að spila fimm deildarleiki í röð með Ajax án þess að skora og hafði ekki náð að komast á blað síðan hann snéri til baka eftir ökklameiðslin sem hann varð fyrir í umspilsleiknum á móti Króatíu í nóvember.

Kolbeinn hefur nú skorað sjö mörk í 16 deildarleikjum en hann var einn þriggja Íslendinga sem skoruðu í þessari umferð því Aron Jóhannsson skoraði fyrir AZ Alkmaar og Alfreð Finnbogason skoraði fyrir Heerenveen. Alfreð hefur skorað 18 deildarmörk á tímabilinu en Aron er með 12 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×