Innlent

„Viðvaningar á vakt“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Eiður hefur skrifað 1.375 bloggfærslur undir yfirskriftinni Molar um málfar og miðla.
Eiður hefur skrifað 1.375 bloggfærslur undir yfirskriftinni Molar um málfar og miðla. mynd/valli
Eiður Svanberg Guðnason, málfarsbloggari, náttúruverndarsinni og fyrrverandi stjórnmálamaður, sendir lesendum sínum áramótakveðju á bloggsíðu sinni í dag. Hann hefur skrifað 1.375 færslur undir yfirskriftinni Molar um málfar og miðla og segir hann í nýjustu færslunni að molunum kunni að fækka á árinu sem nú fer í hönd.

„Það eru bara persónulegar ástæður,“ segir Eiður í samtali við Vísi um ástæður þess að molunum fækkar. „En ég er ekki hættur. Þetta verður kannski eitthvað örlítið sjaldnar, þegar ég hef tíma til að lesa og hlusta.“

Aðspurður segir Eiður að erfitt sé að dæma um það hvort fjölmiðlafólk taki mark á ábendingunum.

„Ég get svo sem ekki nefnt nein beinhörð dæmi. En sumar villur sem ég var að tönnlast á sjást sjaldnar. Ég er til dæmis alveg hættur að heyra það á RÚV að kjörstaðir hafi opnað. Hins vegar sér maður þetta ennþá í netmiðlunum. Ég las um daginn að vegur hefði opnað. Hvern fjandann opnaði vegurinn?“

Ber einhver fjölmiðill af í málfari og stafsetningu að mati Eiðs?

„Nei, ég hef aldrei gert slíka úttekt. Maður sér oft um helgar, og þetta á við um flesta fjölmiðlana, að það eru viðvaningar á vakt. Þetta er það sem ég hef gagnrýnt mest. Það er ekkert gæðaeftirlit. Það situr bara hver í sínu horni og setur beint inn. Þetta eru oft áberandi villur sem standa kannski í sólarhring áður en þær eru leiðréttar, ef þær eru þá leiðréttar. Svo sér maður oft líka villur í fyrirsögnum. Ég hef stundum nefnt það, það er eins og ritstjórar lesi ekki sína eigin miðla. Það þarf einhver að lesa fréttirnar yfir áður en þær birtast á skjánum hjá manni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×