Innlent

Innflutningur á rafsígarettum með nikótíni óheimill

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Gaxa.is selur rafsígarettur án nikótíns.
Gaxa.is selur rafsígarettur án nikótíns. Mynd/gaxa.is
Lyfjastofnun, Neytendastofa og Tollstjóri hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem bent er á að innflutningur á rafsígarettum með nikótíni til endursölu er óheimill nema markaðsleyfi sé fyrir hendi.

Ef markaðsleyfi er ekki til staðar eru rafsígarettur sem innihalda nikótín stöðvaðar í tolli.

Kristján Gunnlaugsson yfirtollvörður í Keflavík sagði í samtali við Vísi að ekki væri mikið um að þeir þyrftu að stöðva innflutning á slíkum vörum í tollinum, en það kæmi þó fyrir.

Rafsígarettur án nikótíns eru seldar á ýmsum stöðum hér á landi en enn sem komið er hefur ekki verið gefið út markaðsleyfi fyrir rafsígarettur með nikótíni í hérlendis.

Gestur Hermannsson, eigandi Gaxa.is, sem er einn þeirra aðila sem selur rafsígarettur segir að íslenskt regluverk sem byggist oft á erlendum reglum geti orðið bjagað vegna smæðar landsins.

„Í Þýskalandi og Póllandi er nikótín löglegt til innflutnings, en Danmörk og Ísland leyfa það ekki,“ segir Gestur.

Gaxa.is hefur verið í sambandi við Lyfjastofnun til að sækja um markaðsleyfi á nikótíninu fyrir rafsígaretturnar.

„Við erum að vinna í því að sækja um formleg leyfi á þessu en ætlum aðeins að sjá hvernig landslagið verður. Það var mikill miskilningur uppi fyrst um innihaldið í þessu, margir sem héldu að þetta væri algert eitur, það er rangt,“ segir Gestur.

Hann bætir við að vissulega þurfi nánari rannsóknir á því hvert innihald þessara sígarettna er.

„En það eru nú þegar komnar fram ýmsar rannsóknir sem koma vel út,“ segir Gestur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×