Enski boltinn

Aukaæfingar hjá Manchester United þessa dagana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David De Gea, markvörður Manchester United.
David De Gea, markvörður Manchester United. Mynd/NordicPhotos/Getty
David De Gea, markvörður Manchester United, greinir frá því í viðtali við sjónvarpsstöð félagsins að leikmenn liðsins æfi nú enn meira til að reyna að rífa sig upp úr meðalmennsku síðustu mánaða.

Manchester United hefur tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum og staða liðsins er ekki góð í ensku úrvalsdeildinni þar sem að liðið er nú ellefu stigum á eftir toppliði Arsenal.

„Við erum nú duglegir að halda áfram eftir æfingar liðsins til að vinna í að bæta hluti eins og fyrirgjafir og að klára færin. Við gerum það einkum þegar það er enginn leikur á dagskrá næstu daga á eftir. Ég tel að þessar aukaæfingar muni hjálpa mér og öðrum leikmönnum liðsins að bæta okkar leik," sagði David De Gea í viðtalinu á MUTV.

Manchester United er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 10 sigra og 6 töp í 20 leikjum en liðið er aðeins í ellefta sæti yfir bestan árangur á heimavelli (4 sigrar, 4 töp í 10 leikjum).

Manchester United hefur tapað 1-2 í þremur síðustu leikjum sínum þar af voru tveir þeirra á Old Trafford. Liðið datt út úr enska bikarnum um síðustu helgi og er 1-2 undir eftir fyrri leikinn á móti Sunderland í undanúrslitum enska deildabikarsins.

Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×